Á Hvannadalshnjúk í hjólastól

Mynd með færslu
 Mynd:

Á Hvannadalshnjúk í hjólastól

16.06.2013 - 20:40
Á hæsta tindi landsins fékk Guðjón Sigurðsson að njóta stórbrotins landslags þrátt fyrir að vera bundinn hjólastól. Með hjálp vinnufélaga og þyrlu rættist draumur hans um að komast á Hvannadalshnjúk.

Langþráður draumur Guðjóns Sigurðssonar, formanns MND-félagsins, rættist í góðviðrinu á föstudag. Með hjálp þyrlu og vinnufélaga sinna komst Guðjón á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk. Níu ár eru síðan Guðjón greindist með taugasjúkdóminn MND og hefur hann verið bundinn hjólastól  í nokkur ár. Fyrir nokkru síðan gengu vinnufélagar Guðjóns á hnjúkinn en sjálfur komst hann ekki nema að rótum jökulsins.

Guðjón hefur áður reynt að komast á tindinn: „Þeir skildu mig eftir við fjallsskörina þegar þeir gengu upp síðast, því þeir nenntu ekki að bera mig.“

En ljóst var að meira en handaflið þyrfti til svo Guðjón kæmist á tindinn. Því söfnuðu vinnufélagar hans hjá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir ferðinni: „Við erum bara að hjálpa samstarfsmanni okkar, Guðjóni Sigurðssyni, að láta stóran draum rætast.“ sagði Hildur Ingvarsdóttir vinnufélagi Guðjóns.

„Þetta er bara dæmi um það að allt er hægt ef við aðstoðum hvert annað. Þannig finnast leiðir að takmarkinu hvort sem er á hæsta tind Íslands eða að finna lækningu við MND.“ sagði Guðjón. 

Samstarfsfólk og vinir Guðjóns hafa áður hjálpað honum að láta draumana rætast.

„Meðal annars að fara í rallý, fara á sjóstöng og fara á mótorhjól. Stóri draumurinn og stóra markmiðið var eftir og það var að fara á hnjúkinn.“ sagði Hildur. 

Þá er bara spurning hvort óskalisti Guðjóns sé tæmdur: „Þetta er búið en þau þekkja mig og þá finn ég eitthvað annað til að gera.“ sagði Guðjón.