Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Á heildina litið höfum við lært af hruninu“

18.08.2018 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: Sean MacEntee - Flickr
Tíu árum eftir hrun eru Íslendingar farnir að kaupa fleiri nýja Porsche-bíla en árið 2007, þeir gista frekar á hótelum í dag en í góðærinu og hafa aldrei farið eins mikið úr landi. Þá henda þeir meiru í ruslið. Hins vegar er íslenski neytandinn að mörgu leyti varkárari og skynsamari en árið 2007, segja þeir viðmælendur sem fréttastofa ræddi við. „Ég myndi segja að á heildina litið höfum við lært af hruninu,“ segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.

Þurfum að halda okkur við efnið

Íslensk heimili hafa til að mynda aldrei lagt eins mikið fé til hliðar til sparnaðar, segir Harpa. „Fólk er búið að vera að eyða frekar pening sem það á sjálft, án þess að neyslulán komi til sögunnar,“ segir hún. Aukning á skuldum heimilanna síðan í hruninu 2008 sé vegna húsnæðislána, ekki neyslulána eða annarra ótryggðra lána, þótt hluti húsnæðislána geti mögulega verið nýttur í neyslu. Harpa bendir þó á að Íslendingar borgi hægar niður af skuldum sínum á undanförnum árum. „Við erum komin á þann punkt núna, tíu árum síðar, að við þurfum að halda okkur við efnið.“

Skuldir hafa verið að lækka allt frá hruni en síðustu misseri hefur orðið breyting þar á, segir Harpa. „Við urðum varkárari með að skuldsetja okkur eftir hrunið en nú sjáum við að skuldir séu farnar að aukast lítillega á ný,“ segir Harpa.

Samsett mynd af flugvélum Icelandair og WOW air
 Mynd: RÚV
Brottförum Íslendinga hefur fjölgað fimm ár í röð.

Brottfarir Íslendinga aldrei fleiri

Brottfarir Íslendinga úr landi hafa aldrei verið fleiri á fyrstu sex mánuðum ársins, segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans. Brottförum hafi fjölgað fimm ár í röð. Gistinóttum Íslendinga á hótelum hér á landi fjölgaði um rúm sjötíu prósent í júní, sé miðað við sama mánuð í fyrra, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbanka Íslands. Mest var aukningin á Suðurnesjum, eða um 140 prósent og segir í Hagsjánni að hana megi eflaust rekja til töluverðrar aukningar á ferðalögum Íslendinga til útlanda. Aukningin á höfuðborgarsvæðinu var um 70 prósent og þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að finna meiri aukningu þar.

„Þegar efnahagsástandið er gott aukast ferðalögin,“ segir Gústaf. „Fólk virðist líka gera betur við sig í ferðalögum nú á undanförnum árum.“ Krónan hafi líka verið sterk á síðustu misserum, sem geri ferðalög úr landi hagstæðari. „Krónan hefur sjaldan verið sterkari, hún er á svipuðum stað og hún var fyrir hrun.“

Fleiri Porsche-bílar en skynsamlegri fjármögnun

Fleiri nýir Porsche-bílar seldust í fyrra hjá Bílabúð Benna en árið 2007. Hins vegar voru kaupendur að mörgu leyti skynsamari en 10 árum áður, bæði hvað varðar bílaval og fjármögnun. Þetta segir Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna. „Það er verið að selja rafmagnsbílana frá Porsche, hybrid-bílana, sem eru á grunnverði undir tíu milljónum. Þannig þú getur eignast í dag Porsche-bíl sem kostar tíu milljónir,“ segir hann. Fyrir þrettán árum hafi ódýrasti Porsche-jeppinn hins vegar kostað á við litla íbúð í miðbæ Reykjavíkur.

Benedikt segir að aukinn kaupmáttur skýri aukna sölu nýrra Porsche-bíla, auk þess sem sparneytnari bílar séu í lægri tollflokki. Hann tekur líka eftir breyttum venjum Íslendinga í fjármögnun bílanna, fólk vilji frekar eiga fyrir bílunum sem það kaupir. Níutíu eða jafnvel hundrað prósent lán, eins og tíðkaðist á árum áður, þekkist varla lengur. „Það er minna um lán og fólk er skynsamara í kaupunum en til dæmis var þarna fyrir hrun,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Níutíu eða jafnvel hundrað prósent lán þekkjast varla lengur.

Hendum næstum tvöfalt meiru í ruslið

Meira en fimmtíu þúsund tonn af úrgangi fóru í gegnum endurvinnslustöðvar Sorpu í fyrra en það er um fjórðungi meira en árið 2007. Magn úrgangs minnkaði verulega í hruninu og var minna en tuttugu og sex þúsund tonn þegar minnst var árið 2010. Magnið hefur því næstum því tvöfaldast á minna en áratugi. Þetta kemur fram í tölum sem Sorpa tók saman að beiðni fréttastofu. Blandaður úrgangur, þar sem húsgögn enda gjarnan, var 5.600 kíló árið 2010 og en var kominn upp í 9.800 kíló í fyrra.

Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að þetta bendi til aukinnar neyslu í þjóðfélaginu. „Það sem endar í tunnunni heima breytist kannski ekki mikið,“ segir hann. „Fólk þarf enn þá að elda sér mat. Hins vegar sjáum við verulegar sveiflur í því sem fer um endurvinnslustöðvarnar okkar, sem eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir úrgang frá heimilum.“

Pappírsendurvinnsla í móttökustöð Sorpu í Gufunesi
Endurvinnsla á pappír hjá Sorpu í Gufunesi. Mynd: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdó
Meira en fimmtíu þúsund tonn fóru um endurvinnslustöðvar Sorpu í fyrra.