Guðni sýnir áhorfendum ofan í pokann sem hann fór með að „plokka“, sem er athöfnin að fara út að skokka og tína upp rusl í leiðinni. „Sumt af þessu er bara fokrusl sem ekkert er hægt að gera við. En annað er bara eins og maður segir á góðri íslensku, bölvaður sóðaskapur! Einhver sem fleygir rusli út úr bílnum sínum.“ Guðni lofar svo framtak Tómasar Knútssonar í Bláa hernum sem vinnur að því að hreinsa strandlengju Íslands af rusli.
„Á meðan ég anda ætla ég að berjast fyrir þessu,“ segir Tómas Knútsson sem fór í fyrsta strandhreinsunarverkefið 2016 við Selvogsvita. „Ég vissi að fjaran væri svolítið slæm þar. Við mættum hundrað manns og eftir þrjá tíma voru við búin að hreinsa upp átta og hálft tonn af rusli á einum og hálfum kílómetra. Verkefnin eru næg, það er því miður nóg af rusli.“