Á flótta undan móðurhlutverkinu

Mynd:  / 

Á flótta undan móðurhlutverkinu

03.12.2018 - 21:29

Höfundar

Leiksýningin Rejúníon er unnin af einlægni og alúð og varpar fram áleitnum spurningum um borgarlegan lífstíl, eftirsókn eftir starfsframa og árekstur þess við móðurhlutverkið.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Lakehouse leikhúsið sýnir nú öðru sinni í Tjarnarbíó og í þetta sinn nýtt íslenskt leikrit eftir unga og óþekkta konu Sóleyju Ómarsdóttur. Verkið er unnið í náinni samvinnu við aðstandendur leikhússins sem hrifust af upphaflegri hugmynd verksins. Titillinn Rejúníon gefur ýmislegt til kynna en í honum leynast meginþræðir verksins, ekki aðeins áætlaðir endurfundir við fyrrum skólafélaga sem aðalpersónan og nýbakaða móðirin Júlía er að skipuleggja með bollakökubakstri og snapchat skilaboðum heldur einnig misheppnaðir endurfundirnir við sjálfa sig eftir barnsburð.  

Júlía er nefnilega unga karríerkonan, ferlafræðingur hjá fyrirtæki og mikill skipuleggjandi, sem nægir ekki að vera í fæðingarorlofi og mynda tengsl við nýfætt barn sitt. Hún verður að halda áfram að hafa afskipti af og stjórnast í málefnum vinnustaðarins af því hún telur sig ómissandi og til að þurfa nú ekki að gleyma sér í brjóstagjöf og bleyjuskiptum verður hún snapchat stjarna með níu þúsund fylgjendur. Núvitundin er víðsfjarri á flótta Júlíu undan móðurhlutverkinu.   

Óreiðan undir mínimalísku yfirborðinu

Til að spegla þessa ofvirkni Júlíu sem að lokum verður að martröð kynnir höfundur okkur fyrir hinum tveimur persónum verksins, eiginmanninum Berki sem er á leið til Noregs í sérnám í læknisfræði og gömlu vinkonunni Hrefnu sem hefur búið í Berlín og hefur allt annað gildismat og lífsstíl en Júlía. Bæði reyna þau að hafa áhrif á Júlíu, toga hana út úr stigvaxandi maníunni, hvort með sínum hætti en án árangurs. 

Leikurinn gerist á heimili Júlíu og Barkar og þar hefur leikmynda- og búningahöfundinum Fíonu Rigler tekist með einföldum lausnum að skapa mínimalíska og táknræna mynd af dæmigerðu borgaralegu heimili og lífi ,,ofurkonunnar“. Líf hennar fer fram á afmörkuðum teppalögðum renningi sem nær frá sviðsbrún og langt aftur á baksviðið en utan hans er annars vegar lítið rými fyrir vöggu barnsins og hinsvegar pallur fyrir fjarstaddan eiginmanninn. Bæði þessi rými ýta frekar undir það tengsla- og sambandsleysi sem verkið fjallar um.   

Á baktjaldi leiksviðisins sjáum við svo risavaxinn snjallsímann sem trónir yfir lífi Júlíu og okkar allra þessi dægin. Þar birtast ómissandi myndskeiðin af sívirku móðurinni, myndskeið sem að lokum fara úr böndunum eins og allt líf Júlíu. Mínimalísk eldhúseyjan með Kitchen Aid hrærivélinni er önnur táknmynd um þann lífsstíl sem Júlía hefur tamið sér og yfirfullir fatakassarnir fremst á sviðinu, en þar leynist enn ein óreiðan sem Júlía reynir að ná tökum á. 

Dramatúrgísk nauðlending

Með markvissri og frumlegri lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar og margræðri hljóðmynd Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur tekst leikstjóranum Árna Kristjánssyni ásamt leikarahópnum að skapa leiksýningu sem í byrjun virðist látlaus, raunsæisleg og eintóna en sækir stöðugt í sig veðrið. Þar kemur ekki síst til form og frásagnarháttur verksins sem hverfist ekki aðeins um eina tímalínu, heldur víxlverkun milli tveggja mismunandi tímaskeiða í lífi Júlíu. Þannig tekst að skapa vissa stígandi sem endar í martraðarkenndum hápunkti. En það var helst á þessum hápunkti sem ég fékk á tilfinninguna að ekki væri hægt að lenda verkinu og að vissu leyti var um dramatúrgíska nauðlendingu að ræða í lokin. 

Texti Sóleyjar er yfir heildina hversdagslegur, aldrei flókinn en lýsandi fyrir einæði Júlíu sem Sólveig Guðmundsdóttir gerir góð skil með úthugsuðum leik og viðbrögðum ekki síst í vöggumartröðinni. Sólveig er eiginlega orðin að drottningu sjálfstæðu leikhúsanna og bætir við sig með hverju verkefninu sem hún tekur að sér. Hún sýnir okkur vel konuna sem snýr hugsanlegu fæðingarþunglyndi sínu upp í maníska vörn. 

Söru Marti Guðmundsdóttur í hlutverki vinkonunnar Hrefnu höfum við ekki oft séð á leiksviði og hlutverk hennar hér er fyrst og fremst ætlað að vera andstæða Júlíu, konan sem nýtur lífsins um leið og hún er meðvituð um afleiðingar lífsstíls sem byggir á kapítalísku arðráni, gengdarlausri neyslu og sóun. Sara Marti fer vel með það sem henni er falið á leiksviðinu á sama hátt og Orri Huginn Ágústsson í hlutverki þolinmóða eiginmannsins. Skypeatriði hans og Júlíu voru í senn fyndin og átakanleg og einstaklega vel af hendi leyst af hálfu leikstjórans.   

Einlægni og alúð

Túlkun og samspil leikaranna ber vitni um trú þeirra og leikstjórans á verkefninu. Einlægni og alúð eru orðin sem lýsa sýningunni best, einlægni gagnvart viðfangsefninu og alúð sem byggir á nánu og nákvæmu samstarfi allra aðila. Leiksýningin Rejúníon veltir sannarlega upp mörgum áleitnum spurningum, einkum um borgaralegan lífsstíl og eftirsókn í starfsframa. Hér er það aðallega speglað í árekstrinum við móðurhlutverkið, væntingar þess og vonbrigði. Það má mæla með þessari leiksýningu fyrir alla þá sem hafa upplifað svipaða togstreitu.