Á fimmta þúsund sektuð fyrir hraðakstur

29.08.2018 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Á þessu ári hafa sexfalt fleiri ökumenn verið sektaðir fyrir hraðakstur á Norðurlandi vestra en fyrir tveimur árum. Á sama tíma hefur slysum fækkað. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, segir að átak í umferðareftirliti hafi skilað árangri.  

Starfsemi lögreglunnar á Norðurlandi vestra var endurskipulögð um áramótin. Stofnuð var sérstök umferðardeild og tveir lögreglumenn sinna nær eingöngu umferðareftirliti. 

„Þetta er að skila sér“

Fyrstu sjö mánuði ársins voru tæplega 4.300 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur í umdæminu, samanborið við tæplega 1.700 á sama tímabili í fyrra. Fjöldi sekta hefur nær sexfaldast frá 2016, þá voru 752 teknir fyrir of hraðan akstur.  

„Þetta er að skila sér og við erum náttúrulega með bíl úti á vegi nánast alla daga alltaf sem eingöngu sinnir þessu,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra. Hann segir að umferðarmál séu hryggjarstykkið í verkefnum lögreglu á svæðinu.

Skráðum umferðarslysum fækkar

Stefán telur að ökuhraði hafi aukist síðustu ár. „Við erum að sjá stundum tölur hérna sem eru gjörsamlega svívirðilegar. Við höfum verið að sjá tölur milli 170 og 180 kílómetra, sem er náttúrulega brjálæðislegt,“ segir Stefán Vagn. Algengt sé að fólk sé tekið á 110 til 120 kílómetra hraða. Stefán telur að aukið eftirlit hafi dregið úr hraða sem hafi aftur áhrif á slysatíðni. Á síðustu tveimur árum hefur skráðum umferðarslysum í umdæminu fækkað úr 113 niður í 87. 

Stefna á að halda verkefninu áfram

Stefán fagnar þessari þróun og telur næsta víst að áfram verði lögð sérstök áhersla á eftirlit með hraðakstri. „Við stefnum að því að fækka umferðarslysum enn frekar og við teljum að þetta sé einn af stærstu þáttunum í því, að ná hraðanum niður,“ segir Stefán Vagn. 

 

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi