Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Á eftir í velferð svína og varphæna

19.05.2014 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar eru á eftir öðrum Evrópuþjóðum í velferð svína og varphæna og þurfa að herða róðurinn, segir yfirdýralæknir. Hér séu hænur til að mynda haldnar í búrum, en það hafi verið aflagt annars staðar í Evrópu.

Yfirdýralæknir segir að sprenging í fjölda ábendinga um illa meðferð á dýrum gefi ekki rétta mynd af því hvar vandinn liggur. Matvælastofnun fékk að jafnaði meira en eina ábendingu á dag í fyrra. Sárafáar ábendingar bárust þó um illa meðferð á svínum og alifuglum enda hefur almenningur takmarkaðan aðgang að þeim búum.

Eftirlitsmenn Matvælastofnunar heimsækja svína- og alifuglabú að minnsta kosti einu sinni á ári. Einnig er fylgst með í sláturhúsum þar sem sést hvernig farið hefur verið með dýrin.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segi að margt megi bæta og segist hún telja að fullur vilji sé í þessum greinum að bæta aðbúnaðinn. Íslendingar séu hins vegar á eftir varðandi varphænur í búrum. Það sé ennþá leyfilegt hér á Íslandi en hafi verið lagt af í Evrópu. Eins með svínin, gyltuhald á básum. Þannig að herða þurfi róðurinn. Nú sé aðeins leyfilegt að halda gyltur á básum á ákveðnum tímum, eins og í kringum got, en annars eigi þær að vera í stíum.

Sigurborg segir að það taki tíma að breyta húsunum. Þar þurfi að spýta í lófana. Sigurborg segist öll af vilja gerð til að fylgja því eftir og gera allt í sínu valdi til að fá fólk til að fylgja lögunum.