Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Á bíl úr endurunnu plasti á Suðurpólinn

23.03.2018 - 19:48
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Hollensk hjón ætla að aka jeppa úr endurunnu plasti á Suðurpólinn. Jeppinn verður knúinn sólarorku. Gert er ráð fyrir að leiðangurinn taki einn og hálfa mánuð. Gerum eitthvað klikkað er yfirskrift leiðangursins á vefsíðu samtakanna Clean 2 Antarctica, eða förum á Suðurskautið án þess að menga. Farartækið nefnist Sólarfarinn eða the Solar Voyager og hefur verið í reynsluakstri hér á landi. 

„Þetta byrjaði allt heima. Við hendum mörgu, til dæmis þegar við eldum. Umbúðirnar eru einskis virði og maður hendir þeim,“ segir Edwin ter Velde, hugmyndasmiður Sólarfarans.

Edwin fór að safna plastinu og bjó til úr því sexhyrninga og þannig var bíllinn smíðaður. 

Bíllinn sjálfur er ekki nema átta hundruð kíló. Við hann bætast tveir tengivagnar með sólarrafhlöðum og þá verður farartækið orðið 16 metrar að lengd. 

Um miðjan nóvember á svo að leggja upp í leiðangurinn og aka tvö þúsund og fjögur hundruð kílómetra á Suðurpólinn og til baka. 

„Við teljum að við komum á sjálfan Suðurpólinn í kringum 10. eða 11. desember, fyrir jól,“ segir Edwin. Hann og Liesbeth, kona hans, ætla að skiptast á að aka og bíllinn verður þeirra heimili í 42 daga. 

Bíllinn kemst mest 8,5 km á klukkustund. Liesbeth segir að þau munu ekki aka svo hratt á Suðurskautinu „Nei, mest 4-5 km/klst. Þannig náum við að spara mesta orku ef veður verður slæmt,“ segir Liesbeth. „Ekki viljum við vera rafmagnslaus í illviðri.“ 

Arctic Trucks aðstoðar hjónin við leiðangurinn. „Þetta er náttúrulega miklu flóknara en menn átta sig á þegar menn ætla að byrja á svona með eldhug. Þannig að við tökum að okkur þennan leiðangur og berum ábyrgð á þessum leiðangri. Og sendum með bíl sem styður við,“ segir Emil Grímsson stjórnarformaður Arctic Trucks.

 

Með í för verða yfirlýsingar íslenskra barna. „Ekki henda plasti í sjó út. Það er ekki gott fyrir heiminn. Það er bara ein Jörð í heiminum. Sorterið plast og pappír og setjð í Sorpu,“ eru skilaboð Arneyja Jóhannsdóttur.

„Þegar við komum á Suðurpólinn sendir við allar þessar yfirlýsingar út,“ segir Edwin.

Hjónin hafa ferðast talsvert saman. Þannig að þið munið þola hvort annað allan þennan tíma? „Já, já. Það verður ekkert vandamál,“ segir Liesbeth.