Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Á bara að viðurkenna misnotkun á vinnuafli?“

Mynd: Freephotosbank / Freephotosbank
Ferðaþjónusta hefur verið í miklum vexti á Suðurlandi. Áður var mikill meirihluti félagsmanna í Verkalýðsfélaginu Bárunni á Selfossi í störfum tengdum landbúnaði en nú er svo komið að yfir 40% þeirra starfa við ferðaþjónustu. Halldóra Sveinsdóttir, formaður Bárunnar segir að undanfarið hafi það færst mjög í vöxt að erlendir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja leiti til félagsins.

 

„Þetta er unga fólkið og erlenda fólkið sem kvartar og þetta er yfirleitt svipað. Kjarasamningsbrotin mörg, vinnutíminn óhóflegur, vinnuskylda á næturnar í formi bakvakta, allt ógreitt. Fólk er á vakt allan sólarhringinn. Veikindaréttur, vetrarfrí, hvíldartími ekki virtur. Ólöglega dregið af neysluhlé. Þetta nær yfir svolítið mikið. Við erum að verða mikið vör við þetta í ræstingarfyrirtækjum, það er vaxandi vinnuálag og erlent starfsfólk kemur ekki til okkar fyrr en allt um þrýtur. Þetta kemur inn í ferðaþjónustuna líka. Svo eru það sjálfboðaliðar sem eru ráðnir á ákveðna upphæð, húsnæði, fæði og svo 40 þúsund kall í laun, og þá er ekki dregið frá heildarlaunum eins og á að gera það er bara 40 þúsund kall yfir borðið.“

Flest málin á borði félagsins tengjast ferðaþjónustunni. Nú liggja tólf kvartanir tengdar einu stóru ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu á borði þess. Fleiri dæmi eru um að margar kvartanir berist vegna eins fyrirtækis.  

„Við erum búin að vera í samvinnu við þetta fyrirtæki í tvö og hálft eða þrjú ár og höfum sýnt allan vilja til að laga hlutina en þetta bara versnar. Þolinmæði okkar er þrotin varðandi þetta fyrirtæki. Við höfum farið á marga fundi, reiknað mikið út, reynt að kenna mönnum að fara eftir kjarasamningum en það er ekki vilji til að gera þetta rétt. Það virðist vera mjög erfitt að fara eftir samningum. Það virðist vera í greininni að ef við náum ekki tökum á ástandinu, verður þá bara viðurkennd misnotkun á vinnuafli í þessari starfsgrein að hluta til. Þetta er grafalvarlegt.“

Hún segir brot fyrirtækisins svipuð og brot annarra. 

„Þetta eru oft yfir 200 tímar, þau nota eigin bíl, fá ekki greitt fyrir það og fá ekki greitt fyrir yfirvinnu. Þú ert kannski með yfir 220 - 240 tíma og færð bara grunnlaunin og kannski vaktaálag. Samningurinn er þannig að grunnlaunin og vaktaálag gilda upp að ákveðinni vinnuskyldu, 173 tímum. Eftir það á að greiða þér yfirvinnu og stundum vantar upp á taxtana líka.“ 

Hún segir að fyrirtækið sem ítrekað brýtur á starfsfólki eigi ekki í rekstrarerfiðleikum. 

„Þetta fyrirtæki er held ég að kaupa lóðir og byggja við. Ég sé ekki að það séu miklir rekstrarerfiðleikar. Það er eitthvað ákveðið siðferði í gangi sem samræmist ekki því siðferði sem við vinnum eftir. Því miður virðist þetta vera orðin hefð hjá sumum fyrirtækjum.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ferðamenn.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þjórféskrukka.

Halldóra segir heimildir stéttarfélagsins veikar og að það upplifi sig vanmáttugt. Félagið fer yfir kvartanir starfsmanna sem leita til þeirra, ef brotið er á starfsmanninum hafa fulltrúar félagsins samband við atvinnurekanda og veita honum ákveðinn frest til að leiðrétta launin, jafnan tíu daga. Ef ekki er leiðrétt fer krafan í innheimtu hjá lögmanni verkalýðsfélagsins. Halldóra segir að oft taki það lengri tíma en tíu daga að knýja fyrirtækin til úrbóta, jafnvel tvo til þrjá mánuði. 

„Ef hann lagar hlutina er málið búið og gott og vel, manni finnst það alveg eðlilegt í ákveðnum tilfellum að svona komi inn á borð tvisvar þrisvar þegar fólk er að byrja í rekstri eða byrja í ákveðinni atvinnugrein. Svo kannski hættir viðkomandi starfsmaður eftir að hafa fengið leiðrétt. Starfsmenn hætta oft eftir svona því þessi tilhneiging heldur áfram. Svo kemur annar starfsmaður og það sama gert við hann. Þá er kannski farinn að þyngjast róðurinn í samskiptum. Þá kemur upp einhver þrjóska og svo er það greitt eftir kannski tvo eða þrjá mánuði, ef ekki fá lögmenn félagsins kröfuna og fylgja henni eftir og það tekur tíma. “

Að jafnaði á fresturinn sem atvinnurekendur fá til að leiðrétta laun aðeins 10 dagar. 

„Oftast eru það tíu dagar en við erum að reyna að finna lausnir og tíminn er stundum lengri. Oft helgast það af því að við þurfum að enda á því að hóta. Þá er þetta greitt. Þá er greitt, menn biðjast vægðar og leiðrétta. Svo kemur næsti starfsmaður frá sama fyrirtæki, sama sagan. Við höfum voðalega veik úrræði.“

Hún segir að oft hætti þeir starfsmenn sem kvarta eftir að hafa fengið launin leiðrétt, það taki á að standa í þessari baráttu. Nýir séu ráðnir inn og misjafnt hvort þeir leiti réttar síns. Menningarlegir þættir geti staðið í vegi fyrir því, sumir komi frá ríkjum þar sem verkalýðshreyfingin er veik.

Segir samstarfsvilja frá ferðaþjónustufyrirtækjum lítinn

Halldóra kallar eftir auknum samstarfsvilja frá ferðaþjónustufyrirtækjum. 

„Hvar er ferðaþjónustan, hún hefur ekki átt samtalið við okkur. Ég finn mikinn mun á því samstarfi og samstarfinu sem við áttum við garðyrkjubændur. Ætlum við að viðurkenna misnotkun á íslenskum vinnumarkaði. Við berum öll ábyrgð. Ef við sjáum eitthvað sem er ekki í lagi viljum við hvetja fólk til að tilkynna það. Þetta á ekki að viðgangast og fólk á að láta okkur vita af þessu þannig að við getum farið og talað við fólkið, sem við höfum gert eftir ábendingar. Þetta verður að koma úr grasrót ferðaþjónustunnar. Ekki vilja Samtök ferðaþjónustunnar og þessir ferðaþjónustuaðilar fá svona óorð á sig.“

Fréttamaður: En eru þetta ekki eðlilegir vaxtaverkir, nokkrir svartir sauðir í atvinnugrein sem er í örri þróun um þessar mundir?

„Nei, þetta er meira en það. Þegar starfsfólk stéttarfélaga getur ekki með góðri samvisku farið inn á marga staði á einu félagssvæði þá eru hlutirnir orðnir eitthvað skrítnir.“

Hún treystir sér ekki til að segja til um hversu hátt hlutfall ferðaþjónustufyrirtækja brýtur á starfsfólki.

„Ég vil eiginlega ekki segja það neitt, við erum náttúrulega ekki að sjá öll fyrirtæki og sum erum við í góðri samvinnu við, sem betur fer. Ferðaþjónustufyrirtæki á okkar svæði var kosið ferðaþjónustufyrirtæki ársins á Suðurlandi. Þannig að, ég myndi vilja sjá svona hvítlista, einhverja vottun, að hlutirnir séu í lagi. Að mönnum væri akkur í því að komast á þann lista eða fá þá vottun. Staðan er það alvarleg að það þarf virkilega að fara að bregðast við.“

 

Ætti að svipta fleiri fyrirtæki leyfi

Halldóru finnst að það ætti að vera meira um að fyrirtæki sem brjóta á starfsfólki séu svipt rekstrarleyfi eða beitt sektum. Fjölmiðlar séu eina úrræði stéttarfélaganna gagnvart fyrirtækjum sem endurtekið brjóti gegn starfsfólki. 

„Mér finnst bara ekki á þessu tekið og við höfum eins og ég segi lítil úrræði og erum búin að benda á þetta en það er kannski ekki vilji til staðar.  Við höfum rætt þetta mikið að það séu fyrirtæki sem geta altlaf eins og ég lýsti áðan, ítrekað [brotið á starfsfólki]. Við höfum engin tæki til að taka á fyrirtækjum sem brjóta ítrekað af sér önnur en fjölmiðla."

Draumurinn um sumarævintýri í sveit breyttist í martröð

Alþýðusamband Íslands hleypti nýlega af stokkunum átaksverkefninu Einn réttur - Ekkert svindl, því er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi. Ráðist var í átakið vegna þess að stéttarfélögin hafa síðustu mánuði orðið vör við vaxandi brotastarfsemi á vinnumarkaði, sérstaklega í byggingargeiranum og ferðaþjónustunni. Í gær fjallaði Spegillinn um ferðaþjónustufyrirtæki sem gera erlendu fólki sem vill starfa hér á landi skrítin tilboð. Mörg erlend ungmenni virðast tilbúin til að sætta sig við að fá frítt fæði og húsnæði og fá greiddar fimmtíu til hundrað þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í dreifbýli. Sérstaklega ef starfið felur í sér einhvers konar nálægð við íslenska hestinn. Eins og fram kemur í umfjöllun Spegilsins eru dæmi um að draumurinn um sumarævintýri í íslenskri sveit hafi breyst í martröð. 

Mismikið álag eftir svæðum

Það er misjafnt eftir landshlutum hversu mikið álag er á stéttarfélögunum. Harpa Ólafsdóttir hjá stéttarfélaginu Eflingu segir málum sem varða erlent starfsfólk ekki hafa fjölgað sérstaklega þar undanfarið. Það sé engin alda að ganga yfir. Hún segir aðgerðir hafa haft áhrif og upplifir ekki að stéttarfélögin séu vanmáttug. Greint var frá því í fréttum RÚV í síðustu viku að erlendir félagsmenn Eflingar leita frekar til félagsins en innlendir. Harpa telur að skýringin kunni að vera sú að íslenskir starfsmenn leiti frekar beint til launagreiðanda. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju á Akureyri segir að félagið fái nú fleiri mál af þessum toga inn á borð til sín en að það sé ekki hægt að tala um bylgju. Fulltrúar félagsins notfæri sér þjónustu túlka í auknum mæli og hafi heimsótt fleiri staði, hugsanlega hafi það haft áhrif. 

Stundum talið gagnlegra að beina fólki til atvinnurekanda

Ung kona sem Spegillinn ræddi við í gær taldi stéttarfélag sitt ekki hafa sinnt sér nægilega vel. Grunnlaun hennar voru of lág og talsmaður stéttarfélagsins ráðlagði henni að ræða málið beint við yfirmann sinn. 

Þegar starfsmaður leitar til stéttarfélags með umkvörtunarefni og stéttarfélagið hefur farið yfir stöðuna og komist að því að sannlega er brotið á starfsmanninum er misjafnt hvað tekur við. Það þurfi að vega og meta hvert tilvik. Harpa Ólafsdóttir hjá Eflingu segir að stundum sé starfsfólki ráðlagt að byrja á því að ræða vandann beint við atvinnurekanda, það sé í vissum tilfellum vænlegra til árangurs en að stéttarfélagið sendi atvinnurekanda harðort bréf. Stéttarfélög séu ekki með því að skorast undan neinu. 

Hefur fulla trú á átaksverkefninu

Halldóra hefur fulla trú á átaksverkefninu Einn réttur - ekkert svindl. 

„Það er verið að búa til teymi milli opinberra stofnana og stéttarfélaganna og ég ber miklar vonir í brjósti um að það komi til með að laga ástandið og þessar tengingar verði til þess að hlutirnir verði í lagi. Við höfum verið svona hvert í sínu horni en það er ákveðið samstarf að fara af stað og ég hef mikla trú á að það skili okkur árangri. Ég held líka að þau fyrirtæki sem eru ekki með hlutina í lagi hafi ekki góða samvisku. Þú vilt ekki reka fyrirtæki með svona óorði. Við erum bara virkilega að fara af stað og fjölmiðlar hafa mikið samband og hafa sýnt þessu mikinn áhuga. Ég held það sé ákveðið tæki til að láta fólk vita og eftir að þessar fréttir fóru að berast þá bara hlýtur hinn almenni borgari með almenna siðferðiskennd að aðstoða okkur í þessu."