Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Á annan tug voru í spilavítinu

Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan hefur í nótt og í dag yfirheyrt átta menn sem voru handteknir í ólöglegu spilavíti í Skeifunni í Reykjavík seint í gærkvöldi. Spilavítinu var lokað og lagt hald á búnað sem þar var að finna.

Á annan tug manna var í spilavítinu þegar lögreglumenn réðust þar inn seint í gærkvöldi. Átta manns sem taldir eru tengjast rekstrinum voru handteknir en gestum spilavítisins var sleppt. Lögreglan lagði hald á ýmsan búnað sem tengist fjárhættuspilum. Mennirnir sem lögregla handtók voru yfirheyrðir í nótt og verður yfirheyrslum haldið áfram í dag. Mennirnir eru enn allir í haldi lögreglu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir einhverjum þeirra.

Þyngsta refsing við brotum á lögum sem varða fjárhættuspil er eins árs fangelsi. Síðustu misseri hafa nokkur sambærileg mál komið til kasta lögreglu.