Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Á annað þúsund skjálftar í dag

29.08.2014 - 22:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Á annað þúsund jarðskjálftar hafa orðið í Vatnajökli og norður af honum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur jarðskjálftavirknin þar verið með sama hætti í kvöld og síðustu daga, engir stórir skjálftar hafa orðið en mikið um smáskjálftavirkni um miðjan berganganginn frá Bárðarbungu.

Öflugustu skjálftarnir í dag hafa orðið við Bárðarbungu; tveir um hádegið mældust 4,8 og 5,2 að styrkleika, og kl. 16:30 í dag varð einn upp á 4,1. Svæðið norður af Vatnajökli er lokað umferð. Fyrr í dag var almannavarnastig vegna eldgoss í Holuhrauni í nótt lækkað af neyðarstigi í hættustig. 

Óvíst er hvernig framhaldið verður. Þrír möguleikar þykja líklegastir. Einn er sá að jarðhræringunum ljúki smám saman án frekari eldgosa. Annar er sá að berggangurinn nái upp á yfirborðið norðan Dyngjujökuls og valdi þar með eldgosi með hraunflóði og hugsanlegum sprengingum. Þriðji möguleikinn er að eldgos verði að hluta eða að öllu leyti undir Dyngjujökli, það gæti valdið flóðum í Jökulsá á Fjöllum og aska gæti farið út í andrúmsloftið.