Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Á að spila tónlist Jacksons áfram?

Mynd:  / 

Á að spila tónlist Jacksons áfram?

05.03.2019 - 19:35

Höfundar

Tveir menn segja að Michael Jackson hafi beitt þá kynferðisofbeldi árum saman þegar þeir voru börn. Margir setja spurningamerki við arfleifð eins vinsælasta tónlistarmanns sögunnar og rætt hefur verið á þónokkrum útvarpsstöðvum hvort hætta eigi að spila tónlist Jacksons.

Heimildarmyndin Leaving Neverland var frumsýnd á HBO sjónvarpsstöðinni í gær og fyrradag. Þar segja þeir Wade Robson og James Safechuck bandaríska tónlistarmanninn Michael Jackson hafa beitt þá kynferðislegu ofbeldi þegar þeir voru börn. Báðir voru þeir heimagangar í hinum ævintýralegu hýbýlum Jacksons, Neverland. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ásakanir um barnaníð koma fram á hendur Jackson. Hann neitaði öllum slíkum ásökunum allt til dauðadags árið 2009. Það gerir fjölskylda Jacksons enn þann dag í dag sömuleiðis. 

Hávær gagnrýni á myndina hefur einnig borist frá fyrirtækinu sem heldur utan um arfleifð Jacksons, sem hefur undanfarna daga birt upptökur af tónleikum Jacksons á YouTube. 

Heimildarmyndin hefur orðið til þess að sett er spurningamerki við arfleifð eins vinsælasta tónlistarmanns allra tíma. Þrjár kanadískar útvarpsstöðvar hafa ákveðið að hætta að leika tónlist Jacksons. 

Norska ríkisútvarpið tilkynnt i í gær að vegna upplýsinga sem fram koma í myndinni yrði tónlist Jackson tekin úr spilun á útvarpsstöðvum NRK í tvær vikur. Um miðjan dag í dag var þeirri ákvörðun snúið við, eftir hávær mótmæli. Tónlist Jacksons er heldur ekki fyrirferðarmikil í dagskrá breska ríkisútvarpsins þessa dagana, en samkvæmt upplýsingum er það þó fyrst og fremst vegna þess að útvarpsfólk hefur frjálsar hendur með hvað þau setja á fóninn.

Hér á landi hefur engin ákvörðun verið tekin í þessum efnum. 

„Við höfum ekki rætt það formlega, nei, en munum gera það á fundi síðar í vikunni. Þeir sem hafa séð þessa mynd segja að upplýsingarnar sem þar komi fram séu sannarlega sláandi þannig að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem við munum skoða. En þetta er ekki einföld ákvörðun,“ segir Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri Rásar 2. 

Heimildarmyndin Leaving Neverland verður sýnd hér á RÚV á mánudag og miðvikudag í næstu viku. Sýnishorn úr myndinni má sjá á meðfylgjandi myndskeiði. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Misnotkun lýst í smáatriðum