Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

99 prósent Framsóknarmanna ánægð með Ólaf

19.04.2016 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
99 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins sögðust vera ánægðir með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, samkvæmt nýrri könnun MMR sem birt var í dag. Könnunin var gerð daginn áður en forsetinn synjaði beiðni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanni flokksins um þingrof, og sama dag. 60 prósent þeirra sem tóku þátt í könnun MMR sögðust ánægðir með störf Ólafs. Tæpum tveimur vikum seinna tilkynnti forsetinn að honum hefði snúist hugur og að hann ætlaði að bjóða sig fram aftur.

Úrtakið í könnun MMR voru 987 sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa. 98 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar sem var: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands.“

Mikill stuðningur hjá Framsóknarmönnum vekur sérstaka athygli, ekki síst í ljósi þess að Sigmundi og Ólafi hefur ekki borið saman um hvað fór raunverulega fram á hinum örlagaríka Bessastaðafundi. Könnun MMR var gerð daginn áður og sama dag og fundurinn fór fram. Sigmundur hefur sagt að hann ætli að tjá sig um samskipti sín við forsetann síðar og hefur vísað því á bug að formleg þingrofstillaga hafi verið borin upp á fundinum. 

Ólafur Ragnar hefur haldið því fram að hann hafi synjað Sigmundi Davíð um að rjúfa þing. Hann lýsti því síðan yfir í gær, tæpum hálfum mánuði eftir Bessastaðafundinn, að hann ætlaði að bjóða sig aftur fram. 

Könnun MMR leiddi enn fremur í ljós að 79 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins sögðust vera frekar eða mjög ánægðir með störf forsetans. Mesta óánægjan er hjá stuðningsmönnum VG en þar sögðust 35 prósent vera frekar eða mjög óánægðir með störf forsetans. 31 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar voru sömu skoðunar. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV