Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

97 prósent ánægð með Guðna

18.12.2016 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Nær allir landsmenn eru sáttir við störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta miðað við niðurstöður skoðanakönnunar Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem kynnt var í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 97 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust ánægð með störf Guðna á þeim fjórum og hálfa mánuði sem liðinn er frá því hann tók við forsetaembættinu.

Samkvæmt frétt Stöðvar 2 eru allt upp í hundrað prósent aðspurðra sátt við hann þegar svörin eru flokkuð niður eftir breytum. Þetta á til dæmis við um kjósendur í Norðausturkjördæmi og stuðningsmenn Viðreisnar svo dæmi séu tekin. Helst er að óánægja mælist með störf forsetans meðal Sunnlendinga og kjósenda Flokks fólksins. Tæp sex prósent Sunnlendinga og 34 prósent stuðningsmanna Flokks fólksins eru ósátt við forsetann.

Guðni tók við forsetaembættinu 1. ágúst og hefur verið áberandi síðan þá með margvíslegum hætti. Meðal annars í tengslum við tilraunir til stjórnarmyndunar eftir alþingiskosningar í lok október. Síðan þá hefur hann veitt þremur forystumönnum stjórnmálaflokka umboð til stjórnarmyndunar og þrýst á stjórnmálamenn að mynda ríkisstjórn sem fyrst.

Leiðrétt Tölur um óánægju Sunnlendinga og stuðningsmanna Flokks fólksins með frammistöðu forsetans voru rangar í upphaflegri gerð fréttarinnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV