Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

96 milljónir í styrki til lýðheilsu

28.03.2018 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, úthlutaði í dag rúmlega 96 milljónum króna í styrki úr Lýðheilsusjóði. Styrkirnir fóru til 169 verkefna og rannsókna. Lýðheilsusjóður hefur það hlutverk að stuðla að heilsueflingu og forvörnum ásamt því að styrkja lýðheilsustarf um land allt.

Styrkjum var í dag úthlutað til verkefna á sviði geðræktar, næringar, hreyfingar og tannverndar auk áfengis-, vímu- og tóbaksvarna. Meðal þeirra sem hlutu styrki voru ADHD-samtökin, Félag áhugafólks um tölvu- og netfíkn og Astma- og ofnæmisfélag Íslands, sem fékk 200.000 krónur til að gera kennsluefni um ofnæmisfæði fyrir heimiliskennara. Flensborgarskólinn fékk 500.000 krónur til að gera mat á innleiðingu núvitundar í skólann og Ljósið fékk eina milljón vegna sjálfstyrkingarnámskeiðs fyrir börn og ungmenni. 

Við auglýsingu eftir umsóknum var meðal annars lögð áhersla á aðgerðir til eflingar geðheilsu, árangursríkar áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, árangursríkar forvarnir sem tengjast kynheilbrigði, aðgerðir sem miða að heilbrigðu mataræði, svefni og hreyfingu, verkefni sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu og verkefni sem tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir