Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

96 milljónir í að ráða aðstoðarmenn þingflokka

14.11.2018 - 21:07
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar var dreift á Alþingi í kvöld. Þar er meðal annars lagt til að 96 milljónum verði varið til þess verkefnis að ráða aðstoðarmenn þingflokka. Það fjármagn, segir meirihlutinn, verður tekið af framkvæmdafé til nýbyggingar Alþingis. Kostnaður við að efla þau tvö ráðuneyti sem verða til þegar velferðarráðuneytinu verður skipt upp í byrjun næsta árs nemur um 90 milljónum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sóttu hart að fjármálaráðherra á Alþingi í dag en þeir segja að í breytingartillögum meirihlutans sé gert ráð fyrir að öryrkjar sitji eftir. Ráðherra sagði í hádegisfréttum RÚV að þetta væri á misskilningi byggt sem byggi á því að tafir verði á því að fyrirhugaðar kerfisbreytingar taki gildi. 

Í nefndarálitinu meirihluta fjárlaganefndar segir að gert hafi verið ráð fyrir fjórum milljörðum vegna þessara kerfisbreytinga. Nú liggi hins vegar fyrir að innleiðing þessara breytinga taki lengri tíma en áætlað var í upphafi og þær hefjist ekki fyrr en á árinu 2020. Engu að síður sé gert ráð fyrir að taka fyrstu skrefin á næsta ári og er áætlaður kostnaður vegna þeirra 2,9 milljarða. Því sé lagt til að framlagið lækki um 1,1 milljarð. 

Þá kemur fram í nefndarálitinu að á fjárlögum ársins 2018 hafi verið settur einn og hálfur milljarður í endurmat á bótum almannatrygginga og áætluðum umframútgjöldum ársins 2017. Framkvæmd fjárlaga í ár bendi til þess að þetta framlag hefði aðeins þurft að vera 300 milljónir.  Fjármálaráðuneytið leggi til að 450 milljónir af þessum 1,5 milljörðum verði haldið innan málaflokksins.

Nefndin leggur til að 200 milljónum verði varið til húsnæðisúrræða og búsetuþjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda. Og 20 milljónum til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.   

Í nefndarálitinu er einnig lagt til að 15 milljónum verði varið til að efla starfsemi úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Jafnframt segir í nefndarálitinu að kostnaður Íslands við setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna næstu átján mánuði nemi um 95 milljónum. Og því leggi nefndin til tímabundið framlag upp á 65 milljónir á fjárlögum næsta árs. 

Þá er gert ráð fyrir framlag Íslands til Nato hækki um 12,5 milljónir en það er í nefndarálitinu sagt stafa af bættum efnahag á Íslandi.  Verja á 75 milljónum til að styrkja rekstur ríkisskattstjóra og 64 milljónum til að styrkja rannsóknir og saksókn lögreglu til að tryggja haldlagningu og upptöku fjárhagslegs ávinnings af auðgunarbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi. Framlag til lögreglustjórans á Norðurlandi vestra verður sömuleiðis hækkað um 14,6 milljónir eða sem nemur einu stöðugildi í kynferðisbrotamálum. 

Þá er gert ráð fyrir að 180 milljónum verði varið til þróunarverkefnis á vegum Skútustaðahrepps sem byggist á aðskilnaði fráveitukerfa í byggingum á svæðinu. Þar á að nýta svokallað svartvatn til uppgræðslu auðna á Hólasandi. Þá leggur meirihlutinn til breytingartillögu um 200 milljónir króna til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV