Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

92 milljarðar í sérfræðiþjónustu á tíu árum

31.05.2018 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenska ríkið keypti sérfræðiþjónustu af einkaaðilum fyrir 92,3 milljarða króna á árunum 2008 til 2017. Mest fór í hugbúnaðargerð og það sem flokkað er sem „önnur sérfræðiþjónusta“ – samanlagt nemur það meira en helmingi kostnaðarins. Mest var keypt árið 2016, fyrir rúma 11 milljarða króna, en minnst 2013, fyrir rúma 6,8 milljarða.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Fyrirspurnin sneri reyndar að kaupum á ráðgjafarþjónustu, en í svarinu segir að ráðgjöf sem ráðuneyti og stofnanir kaupi sé í bókhaldi flokkuð sem aðkeypt sérfræðiþjónusta. Sú sérfræðiþjónusta sé þó ekki öll í formi ráðgjafar, heldur sé undir þeim bókhaldslyklum líka að finna aðkeypta þjónustu háskólamenntaðra verktaka og stundum séu efniskaup þarna undir. Erfitt geti verið að greina á milli slíkrar þjónustu og ráðgjafar.

Í töflunni hér að neðan má sjá upphæðir eftir árum og flokkum, auk heildartalna. Allar tölur eru námundaðar að næstu milljón. Ekki er víst að taflan birtist vel í snjalltækjum.

  2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 Alls
Viðskipta- og hagfræðingar, endurskoðendur og rekstrar-ráðgjafar 461 458 369 365 390 263 493 542 541 404 4.286
Lögfræðingar 1.173 1.212 1.754 1.243 1.648 1.494 1.764 2.022 1.946 1.866 16.121
Verkfræðingar, tæknifræðingar og arkitektar 1.952 1.825 1.692 1.729 1.660 1.628 1.785 1.892 1.265 2.354 17.781
Náttúru-, eðlis- og efnafræðingar 542 523 519 379 445 501 535 517 482 427 4.870
Önnur sérfræðiþjónusta 3.441 3.034 3.084 2.421 1.498 571 2.286 2.257 3.944 2.199 24.735
Hugbúnaðargerð 2.288 2.180 2.126 2.112 2.198 2.332 2.481 2.670 2.795 2.945 24.126
Ráðningarþjónusta 54 18 41 45 42 45 18 27 44 46 380
Alls 9.911 11.016 9.928 9.362 6.833 7.881 8.293 9.585 9.249 9.911 92.300

 

Séu tölurnar fyrir einstakar stofnanir skoðaðar hlaupa hæstu upphæðirnar í fyrra á hundruðum milljóna. Þannig varði Háskóli Íslands 519 milljónum króna í „aðra sérfræðiþjónustu“ og Matís 442 milljónum í sama lið. Aðkeypt sérfræðiþjónusta sem fellur undir málskostnað í opinberum málum nam í fyrra 767 milljónum og í opinbera réttaraðstoð fóru 395 milljónir.

Fjársýsla ríkisins varði 464 milljónum í keypta sérfræðiþjónustu við hugbúnaðargerð og Landspítalinn 415 milljónum. Þá varði spítalinn 434 milljónum í aðra sérfræðiþjónustu, en tekið er fram í svari Bjarna að þjónusta heilbrigðisstétta eigi ekki að vera skráð undir þessum bókhaldsliðum og sé því undanskilin í svarinu. Það sama eigi við um þjónustu túlka og þýðenda.

Hæstu upphæðirnar í skjalinu eru reyndar fyrir verkfræði- og arkitektaþjónustu sem Vegagerðin hefur keypt, en hún er að stórum hluta keypt innanhúss og því mikið til dregin frá undir öðrum liðum.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV