Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

911 milljóna króna skattamáli vísað frá dómi

23.02.2018 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd: ©Þórgunnur Oddsdóttir
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá skattamáli gegn manni sem var ákærður fyrir að látið undir höfði leggjast að telja fram fjármagnstekjur upp á 911 milljónir sem voru tekjur hans af 648 framvirkum samningum sem hann gerði við Glitni, Landsbanka og Straum- Burðarás. Málinu var vísað frá með hliðsjón af meginreglunni um bann við tvöfaldri refsingu.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í maí á síðasta ári að íslenska ríkið hefði brotið á Jóni Ásgeir Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir til að greiða 62 milljóna króna sekt fyrir skattalagabrot. Þeir hefðu áður verið sektaðir vegna sömu brota og því hefði verið brotið gegn reglum um bann við endurtekinni málsmeðferð. 

Dómur Mannréttindadómstólsins og túlkun Hæstaréttar á honum í september á síðasta ári hafði umtalsverð áhrif. Héraðssaksóknari ákvað í framhaldinu að fella niður 62 mál en upphæðirnar í þeim málum námu allt frá hálfri milljón upp í rúma 2,2 milljarða. 

Og nú hefur eitt mál verið fellt niður fyrir dómstólum vegna þessara tveggja mála og biðarinnar eftir þeim.

Héraðsdómur segir í dómi sínum að heildartíminn sem málið var til meðferðar hjá skattayfirvöldum, lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum hafi verið 7 ár og rúmir 4 mánuðir. 

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á málinu árið 2011 og sendi sama ár bréf til sérstaks saksóknara sem boðaði manninn til skýrslutöku ári seinna. Máli mannsins hjá skattayfirvöldum lauk síðan með úrskurði yfirskattanefndar í desember 2013 og hálfu ári seinna gaf sérstakur saksóknari út ákæru á hendur manninum.

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2014 þar sem maðurinn neitaði sök. Málinu var síðan frestað ítrekað á meðan beðið var eftir dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs og síðar dómi Hæstaréttar í sem var talið að hefði fordæmisgildi. 

Maðurinn neitaði alla tíð sök og krafðist meðal annars frávísunar í fyrra en dómurinn hafnaði þeirri beiðni samdægurs. Hann krafðist síðan aftur frávísunar í febrúar sem fallist var á í dag.

Héraðsdómur telur að maðurinn hafi verið settur í óhæfilega óvissu um réttarstöðu sína auk þess sem óþarfa tafir hafi orðið á málarekstri hans hjá ákæruvaldinu án þess að nokkrar skýringar hafi verið gefnar á því.

Niðurstaðan sé því sú að sakamálin tvö, annars vegar hjá skattayfirvöldum og hins vegar í réttarvörslukerfinu, hafi verið það ótengd í tíma að ítrekuð málsmeðferð hafi farið í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu.