Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

9.000 konur taka þátt í Nordisk Forum

11.06.2014 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd:
360 íslenskar konur taka þátt í ráðstefnunni Nordisk Forum sem hefst í Malmö í Svíþjóð á morgun. Þetta er stærsta jafnréttisráðstefnan á Norðurlöndunum. Alls taka 9.000 konur þátt í henni.

Á Nordisk Forum  koma saman konur frá öllum Norðurlöndunum til að ræða jafnréttismál og setja skýr markmið fyrir framtíðina. Ráðstefnan hefur tvisvar verið haldin áður, í Ósló 1988 og í Finnlandi 1994.

Hildur Helga Gísladóttir,  fulltrúi Kvenfélagasambandsins og Kvenréttindafélagsins,  situr í norrænum stýrihópi ráðstefnunar, en þetta er í fyrsta sinn sem kvenfélagahreyfingarnar sjálfar skipuleggja Nordisk Forum. Fréttastofa náði  tali af henni rétt fyrir flugtak þar sem hún var á leið til Malmö ásamt hópi íslenskra kvenna. 

Hildur segir ráðstefnuna afar mikilvæga því jafnréttisbaráttunni sé hvergi nærri lokið. 

„Þó það sé í lagabókstafnum þá er það svo sannarlega ekki í reynd. Það er mjög langt í land og það er mjög mikilvægt að sinna því og alls ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, “ segir Hildur. 

Vigdís Finnbogadóttir og Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum eru meðal þeirra sem halda erindi á ráðstefnunni. Áherslurnar í ár verða margar.

 „Til dæmis þá erum við að hugsa um launamun kynjana og kynbundið ofbeldi. Við erum líka að tala um öryggi og frið, pólitíska þáttöku og samfélagsþróun og margt annað, “ segir Hildur. 

[email protected]