Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

88 ný smit og 890 nú greindir með COVID-19

27.03.2020 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
890 eru nú með staðfest smit af COVID-19 kórónuveirunni hér á landi samkvæmt nýjum tölum frá almannavörnum. 88 smit hafa bæst við síðan í gær þegar fjöldinn fór yfir átta hundruð.

Alls voru tekin tæplega þúsund sýni í gær og hafa nú alls verið tekin 13.613 sýni. Fjöldi þeirra sem er í sóttkví er kominn yfir tíu þúsund. 806 eru í einangrun og 82 hefur batnað samkvæmt tölum covid.is.

Fjöldi óþekktra smita hefur fækkað milli daga. Þau voru 90 í gær en eru nú skráð 69. 550 smit hafa verið rakin innanlands en 271 smit hefur verið rakið erlendis. Af þeim sem hafa fengið kórónuveiruna hefur nærri helmingur þegar verið í sóttkví. Fjórir sjúklingar á aldrinum 80 til 99 ára hafa greinst með sýkinguna en stærsti hópurinn er á aldrinum 40 til 49.

Sex eru í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans vegna COVID-19. Einn þeirra er eiginmaður konunnar sem lést fyrr í vikunni úr sjúkdómnum. 

Flest smit eru eftir sem áður á höfuðborgarsvæðinu, 686, en staðfest smit á Suðurlandi eru nú komin í 100. Annað smit hefur bæst við á Vestfjörðum og þá eru þrjú staðfest smit á Austurlandi. Á Norðurlandi vestra eru 17 smit, 16 á Norðurlandi eystra og 12 á Vesturlandi. Þá er 41 staðfest smit á Suðurnesjum. Þrettán smit eru óstaðsett.