8.795 yfirvinnutímar vegna leiðréttingarinnar

31.05.2016 - 22:53
Skúli Eggert Þórðarson á fundi hjá efnahags- og viðskiptanefnd út af aðgerðum gegn skattaskjólum.
 Mynd: RÚV
Starfsmenn ríkisskattstjóra unnu 8.795 yfirvinnutíma á árunum 2014 og 2015 vegna leiðréttingarinnar. 19 voru í fullu starfi þegar mest var en lengst af störfuðu 16 til 17 starfsmenn embættisins við framkvæmdina. Alls komu 90 starfsmenn að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Samheldni myndaðist meðal starfsmanna um að taka þessari áskorun „sem hafði í för með sér mikinn hvata til kraftmikils vinnuanda.“

Þetta er meðal þess sem hægt er að lesa í svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur um áhrif höfuðstólslækkunar á starfsemi ríkisskattstjóra. 

69 þúsund umsóknir frá 105 þúsund einstaklingum bárust embætti ríkisskattstjóra vegna höfuðstólslækkunar fasteignalána. Mikið álag var á embættinu þá daga - það fékk til að mynda 46 þúsund símtöl og 33 þúsund tölvupósta frá 18. maí 2014 til 2. febrúar 2015. Á vefinn leidretting.is komu 870 þúsund heimsóknir, meðal annars frá Vatíkaninu. Enda viðurkenndi Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, í samtali við fréttastofu að þetta hefði verið töluvert annasamara og umsvifameira en hann hefði átt von á.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í svari fjármálaráðherra kemur fram að ríkisskattstjóri hafi skipað sérstakan stýrihóp yfir verkefninu - hann fundaði 102 sinnum frá upphafi verkefnisins þar til því lauk á haustmánuðum 2015. Þá auglýsti embættið eftir umsóknum um laus störf sérfræðinga við svið höfuðstólsleiðréttingar daginn eftir að frumvarpið var lagt fram. 373 sóttu um og voru 13 ráðnir tímabundið. 

Ráðherra rekur einnig hvers konar áhrif verkefnið hafði á starfsmenn embættisins. Hann segir að starfsmennirnir hafi átt fund þar sem þeir ákváðu í sameiningu að þetta verkefni yrði eins vel úr garði gert og töku væru á. „Þannig myndaðist ákveðinn samheldni meðal starfsmanna um að taka þessari áskorun og hafði það í för með sér mikinn hvata til kraftmikils vinnuanda,“ segir í svari fjármálaráðherra. 

Þá upplýsir fjármálaráðherra að þær lausnir sem notaðar voru í leiðréttingunni verði meira áberandi á komandi árum. „Leiðréttingin var í heild mikið lærdómsferli fyrir ríkisskattstjóra eins og alla aðra sem komu að verkefninu, verkefnisstjórnina, fjármálafyrirtæki og hlutaðeigandi ráðuneyti.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi