86 sagt upp hjá Odda

30.01.2018 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
86 starfsmönnum hjá prentsmiðjunni Odda hefur verið sagt upp. Flest er starfsfólkið með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Uppsagnirnar eru vegna breyttra áherslna við umbúðaframleiðslu fyrirtækisins. Innlendri framleiðslu plast- og bylgjuumbúða verður hætt og áhersla lögð á innflutning umbúða og eflingu prentverks og öskjuframleiðslu.

„Þetta er grundvallarbreyting á starfsemi fyrirtækisins og það er vissulega áhugaverð vinna fram undan við að byggja upp nýjan Odda. Á þessari stundu leggjum við hins vegar höfuðáherslu á að aðstoða okkar góða starfsfólk sem skilur við Odda í kjölfar breytinganna eins og við getum. Það er algert forgangsmál í okkar huga,“ er haft eftir Kristjáni Geir Gunnarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Odda í tilkynningu frá fyrirtækinu. Eftir að uppsagnirnar taka gildi verða starfsmenn fyrirtækisins 110 talsins. 

Framleiðslu verður á næstu mánuðum hætt í verksmiðjunum Plastprenti og Kassagerðinni. Við breytingarnar verða 83 störf við framleiðslu og afleidd störf lögð niður og fækkað verður um þrjú stöðugildi í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir