81% hegningarlagabrota á höfuðborgarsvæðinu

08.01.2019 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráði mikinn meirihluta hegningarlagabrota í skrá sína á síðasta ári, samkvæmt bráðabirgðatölum sem ríkislögreglustjóri birti á vefnum í dag. 80,8 prósent allra hegningarlagabrota voru skráð í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

5,6 prósent hegningarlagabrota voru skráð í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Sé litið til fjölda íbúa í hverju umdæmi þá eru flest hegningarlagabrot framin á höfuðborgarsvæðinu, eða 424 brot á hverja 10.000 íbúa. Í umdæmi lögreglunnar í Vestmannaeyjum eru 285 brot á hverja 10.000 íbúa. Íbúar á Norðurlandi vestra eru hlutfallslega stilltastir, þar voru 83 brot framin á hverja 10.000 íbúa.

Almennt hefur fjölda brota í afbrotaskrá lögreglunnar fjölgað nokkuð á milli ára. Lögreglan miðar bráðabirgðatölur síðasta árs við meðalfjölda brota á árunum 2015-2017. Sérrefsilagabrotum – það eru til dæmis brot á fíkniefna- og áfengislögum, vopnalögum og lyfjalögum – fjölgaði hlutfallslega mest árið 2018 eða um 26 prósent miðað við viðmiðunartímabilið. Umferðarlagabrotum fjölgaði um 21% og hegningarlagabrotum um sex prósent.

 
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi