8000 tonn af malbiki í uppsöfnuð verkefni

14.08.2018 - 19:34
Malarbílastæðið á Ísafjarðarflugvelli sker sig sérstaklega úr eftir störf malbikunarflokka á norðanverðum Vestfjörðum í sumar. Átta þúsund tonn af malbiki voru notuð á vegi, glufur og göngustíga.

Hafa haft í nógu að snúast

Tíu manna malbikunarflokkur hefur haft í nógu að snúast á norðanverðum Vestfjörðum síðustu vikur. „Við erum búnir að vera að leggja götur, göngustíga, plön hafnarplan, allskonar smáverk. Þá var hópur sem að malbikaði götur hérna, svo það er búið að malbika helling hérna,“ segir Ársæll Páll Kjartansson, verkstjóri hjá malbikunarstöðunni Hlaðbæ Colas. Veistu hvað þetta er mikið? „Ég held að það sé rétt norðan við 8000 tonn,“ segir Ársæll. Átta þúsund tonn eru eins og þyngdin á 90 þúsund meðalkarlmönnum.

Uppsöfnuð verkefnaþörf

Verkefnaþörfin er uppsöfnuð en einungis er malbikað á svæðinu á tveggja ára fresti. „Þetta verður svo lítið ef þú tekur þetta á hverju ári. Menn eru bara ekki tilbúnir í það. Borgi sig ekki? Ég held það sé það. Menn vilja taka stærri pakka í einu,“ segir Kristján Andri Guðjónsson, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar Ísafjarðarbæjar.

Sveitarfélög, Vegagerð og einkaaðilar

Sveitarfélög og Vegagerðin fóru í sameiginlegt útboð en fleiri nýttu sér viðveru malbikunarflokkanna. „Það eru alltaf einhver aukaverk sem koma inn, einkaaðilar svo það er bara flott,“ segir Ársæll. Isavia gerði það hins vegar ekki.

Áfram malarstæði á Ísafjarðarflugvelli

Bílastæðið á Ísafjarðarflugvelli hefur aldrei verið malbikað frá því flugvöllurinn opnaði árið 1960 eða í 58 ár. Bílastæðið er á vegum Isavia sem hefur lengi ætlað að láta malbika það. Flugbrautir og flugvallarmannvirki eru hins vegar í forgangi vegna vanfjármögununar innanlandsflugvalla. „Þeir hljóta þá að líta til þess að það er núna búið að gera stórátak í Ísafjarðarbæ. Og þeir hljóta þá að ætla að vera með næst,“ segir Kristján Andri, það verður þó ekki fyrr en eftir tvö ár, en þá stendur einnig til að malbika Dýrafjarðargöng.

Í dag lauk nokkurra vikna törn malbikunarkappanna með frágangi og snatti í blíðskaparveðri. „Þetta á að vera svona, ekki í rigningum og leiðindum,“ segir Ársæll.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi