Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

80 prósent styðja sjálfstæði Palestínu

22.10.2011 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Áttatíu prósent landsmanna telja að Íslendingar ættu að viðurkenna sjálfstæðis- og fullveldiskröfu Palestínu. Næstum allir kjósendur stjórnarflokkanna telja að viðurkenna eigi sjálfstæðið, en aðeins rúmur helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup. Spurt var: „Finnst þér að Íslendingar ættu að viðurkenna sjálfstæðis- og fullveldiskröfu Palestínu eða finnst þér að þeir ættu ekki að gera það?“ 66% aðspurðra tóku afstöðu, og af þeim sögðu 80% að Íslendingar ættu að viðurkenna sjálfstæðið, en 20% sögðu að þeir ættu ekki að gera það. Konur telja frekar en karlar að Íslendingar ættu að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og fólk með háskólamenntun telur frekar að þeir ættu að viðurkenna það en fólk með minni menntun.

Mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það kýs. 96% kjósenda stjórnarflokkanna telja að viðurkenna eigi sjálfstæði Palestínu, 68% kjósenda Framsóknarflokks en aðeins 55% kjósenda Sjálfstæðisflokks. 89% kjósenda annarra flokka telja að viðurkenna eigi sjálfstæðið.