
Mexíkósk súpa
1 dl vatn
400 g kjúklingakjöt (má sleppa og nota 2 sætar kartöflur í staðinn, ég geri það)
1 rauð íslensk paprika
½ stk rautt chili, fræhreinsað eða 1 grænt chili (mildara) og má sleppa hvorutveggja
1 laukur, blaðlaukur eða 5-6 hvítlauksrif pressuð (eða sitt lítið af hverju)
2 vænar tsk. paprikuduft
1 sæt kartafla (ef ég sleppi kjúklingnum, sem ég geri oft, þá nota ég í allt um 2 sætar kartöflur)
6 þroskaðir íslenskir lífrænir tómatar (eldrauðir)
3 msk. tómatmauk
1 l vatn
1 tsk. sjávarsalt
2 vænar msk. msg-laus lífrænn grænmetiskraftur
2 dl aukaefnalaus (lífræn mild) tacosósa
100 g rjómaostur, ½-1 dós sýrður rjómi eða 200 ml aukefnalaus kókosmjólk
- Skerið kjúklinginn í munnbita.
- Þvoið paprikuna og chiliið og fræhreinsið, skerið í litla bita.
- Skerið laukinn smátt.
- Steikið kjúkling, papriku, chili og lauk í um einum desilítra af vatni í nokkuð stórum potti við vægan hita, látið paprikuduftið krauma með.
- Þvoið og afhýðið sætu kartöfluna, skerið hana í munnbita og skutlið í pottinn.
- Þvoið og skerið tómatana í litla bita og bætið út í pottinn.
- Bætið svo tómatmauki, vatni, sjávarsalti og krafti í pottinn og látið sjóða í um 20 mínútur.
- Bætið við salsa og rjómaosti/kókosmjólk/sýrðum og látið hitna ef þarf í örfáar mínútur.
- Berið fram með nachos, sýrðum rjóma og rifnum feitum osti eða mozzarella
- Munið að láta aldrei hráan kjúkling (sem og kjöt almennt) komast í snertingu við hrátt grænmeti eða salat. Best að nota sérbretti undir hráan kjúkling. Snjallt er að eiga bretti í nokkrum litum og halda þannig hráefnunum enn betur aðskildum.
- Ég mæli með hreinu lífrænu nachos með sjávarsalti án allra aukaefna!
- Það má svo sannarlega líka steikja eða grilla kjúklinginn. Munið að nota vægan hita.
- Þá má bera kjúklinginn fram sér með súpunni og þá er líka auðvelt að mauka súpuna ef einhver á heimilinu „borðar ekki grænmeti“ nema það sé dulbúið (maukað).
- Tómatar þurfa að þroskast á stofuborði eins og ávextir til að verða eldrauðir og sætir.