Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

8 flokkar í framboði í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd:
Fram að sveitarstjórnarkosningum 31. maí heimsækir Fréttastofa RÚV 21 af stærstu sveitarfélögunum í landinu. Í kvöld beinum við sjónum okkar að Reykjavík. Reykjavíkurborg er fjölmennasta sveitarfélag landsins. Þar búa rúmlega 120 þúsund manns, eða næstum því 40% þjóðarinnar.

Skuldir Reykjavíkurborgar nema rúmum 286 milljörðum og vega skuldir Orkuveitunnar þar langþyngst. Á síðasta ári varð afgangur af rekstri Reykjavíkurborgar upp á 8,4 milljarða króna, um 700 milljónum umfram það sem gert var ráð fyrir. 

Málefni Orkuveitunnar voru fyrirferðarmikil á kjörtímabilinu en árið 2011 var hrundið af stað sérstakri aðgerðaáætlun til þess að hagræða í rekstrinum og minnka skuldir. Sameining grunnskóla í borginni olli fjaðrafoki. Nýtt aðalskipulag var samþykkt í janúar, en vinna við það hafði staðið yfir í átta ár. Enn er tekist á um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og húsnæðismál eru ofarlega á baugi. 

Kjörtímabilið sem senn er á enda einkenndist af talsvert meiri stöðugleika en kjörtímabilið á undan, þegar meirihlutinn í borginni sprakk þrisvar sinnum og fjórir sátu á stóli borgarstjóra. Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta í kjölfar síðustu kosninga og samstarfið hefur haldist síðan.

Besti flokkurinn fékk 6 fulltrúa kjörna og Samfylkingin 3. Þar fyrir utan hafa 5 fulltrúar Sjálfstæðisflokksins setið í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og 1 frá Vinstri grænum. 

Framsóknarflokkurinn átti í talsverðu basli við að koma saman framboðslista fyrir komandi kosningar. Til stóð að Óskar Bergsson leiddi listann en hann steig til hliðar í byrjun apríl. Um nokkurt skeið leit út fyrir að Guðni Ágústsson tæki oddvitasætið en í lok apríl var tilkynnt að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir tæki fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina. Framsókn fékk 2,7% atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningum og kom engum manni að.

„Í fyrsta lagi þá virðum við skoðun 71% Reykvíkinga sem vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni og við viljum standa vörð um neyðarflugbrautina,“ segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins. „Við viljum auka valfrelsi fólks í búsetuformum og hafa meira aðgengi að leigumarkaði og styðja við þjónustu í úthverfum. Í þriðja lagi viljum við forgangsraða fjármunum í þágu skóla og menntamála, til þess að börnin okkar fái þá þjónustu sem þau eiga skilið og gera sameiginlegt átak í lestrarkennslu.“

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,6% atkvæða í síðustu kosningum, einu prósenti minna en Besti flokkurinn, sem flest atkvæði fékk. Halldór Halldórsson, sem áður var bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, leiðir nú lista Sjálfstæðismanna.

„Við setjum nemandann í fyrsta sæti og við ætlum að breyta skólakerfinu. Við ætlum að koma á þjónustutryggingu til þess að leysa biðlistavandamál barnafjölskyldna í borginni,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Í málefnum eldri borgara þá viljum við auka valfrelsi þeirra, við ætlum að bæta þjónustu við eldri borgara. Við ætlum að lækka skatta og við höfnum því að flytja flugvöllinn til Keflavíkur. Í húsnæðismálum þá ætlum við að auka lóðaframboðið til þess að lækka leigu og kaupverð og okkur langar mjög mikið til þess að gera betur í því að halda borginni okkar hreinni og glæsilegri.“

Alþýðufylkingin er róttækur vinstri flokkur sem býður nú fram í fyrsta sinn í borginni. Oddviti lista Alþýðufylkingarinnar er Þorvaldur Þorvaldsson, sem áður var í Vinstri grænum. 

„Alþýðufylkingin leggur áherslu á jöfnuð, velferð og félagslegar lausnir. Með velferð er ekki átt við ölmusu heldur rétt allra til þess að lifa með reisn við mannsæmandi lífskjör og virkni í samfélaginu,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson, oddviti Alþýðufylkingarinnar. „Félagslegt húsnæði á að vera réttur allra. Með frumkvæði borgarinnar í atvinnumálum má skapa tekjur og störf fyrir þá sem standa höllum fæti á vinnumarkaðnum. Við viljum gera borgina umhverfisvænni með róttækum umbótum í almenningssamgöngum. Við munum verja Orkuveituna og innviði borgarinnar gegn einkavæðingu. Jöfnuður, velferð, félagslegar lausnir.“

Auk þess að eiga þrjá fulltrúa í meirihluta borgarstjórnar á núverandi kjörtímabili er formennska í borgarráði á forsjá Samfylkingarinnar. Því embætti hefur Dagur B. Eggertsson gegnt, en hann er oddviti framboðslista Samfylkingarinnar. 

„Við viljum áfram frið og ró og yfirvegun í borgarmálunum. Við leggjum áherslu á stöðu barna og barnafjölskyldur. Við viljum auka systkinaafslætti og hækka frístundakortið,“ segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar. „Og við leggjum mikla áherslu á húsnæðismál og lausnir þar. Við viljum byggja 2500-3000 leigu- og búseturéttaríbúðir þannig að allir hafi þak yfir höfuðið.“

Stjórnmálasamtökin Dögun voru stofnuð árið 2012 og buðu fram til Alþingiskosninga ári seinna. Þau bjóða nú fram í fyrsta sinn í borginni og Þorleifur Gunnlaugsson, sem áður var í Vinstri grænum, leiðir listann.  

„Það er forgangsmál að koma húsnæðis- leikskóla- og mannréttindamálum og velferðarmálum almennt í betra horf. Þar sem rukkað er fyrir þjónustuna viljum við draga úr kostnaði lágtekju- og millitekjuhópa með tekjutengingu,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti Dögunar. „Við viljum ekkert leynimakk heldur gagnsæi, samráð, íbúakosningar og róttækt hverfalýðræði. Dögun vill réttlátari Reykjavík, xT.“

Sóley Tómasdóttir var eini fulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili en flokkurinn fékk rúm 7% atkvæða í síðustu kosningum. Sóley leiðir lista flokksins í borginni í annað sinn. 

„Vaxandi fátækt og misskipting í samfélaginu er ólíðandi. Tryggjum jafnt aðgengi allra barna að menntun, skólamáltíðum og frístundaheimilum með því að afnema gjaldheimtu fyrir þessa sjálfsögðu og mikilvægu þjónustu,“ segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna. „Þannig tryggjum við líka auknar ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna sem bera allt of þungar byrðar í dag. Það er raunhæft að innleiða gjaldfrelsið í áföngum á kjörtímabilinu. Til þess þarf pólitískan vilja og ábyrga fjármálastjórn þar sem forgangsraðað er í þágu barna.“

Píratar bjóða nú fram í fyrsta sinn í borginni. Listann leiðir kapteinninn Halldór Auðar Svansson, sem er tölvunarfræðingur.

„Píratar vilja breytingar á stjórnsýslukerfinu sjálfu sem miða að því að færa völdin í auknum mæli í hendur almenningi,“ segir Halldór Auðar Svansson, kapteinn Pírata. „Þetta þýðir að við viljum auka samráð við íbúa þegar kemur að þeim og þeirra hagsmunamálum. Standa á réttindum fólks og auka við beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast. Við viljum að kerfið vinni með fólki en ekki gegn því.“

Besti flokkurinn býður fram undir nýjum merkjum í ár. Borgarstjórinn Jón Gnarr kaus að láta eitt kjörtímabil í stjórnmálum duga og við það rann Besti flokkurinn saman við Bjarta framtíð. Björn Blöndal, varaborgarfulltrúi og aðstoðarmaður borgarstjóra á núverandi kjörtímabili, leiðir lista flokksins.

„Björt framtíð er hópur af fólki sem er staðráðið í því að gera sitt besta fyrir Reykjavík og með því að kjósa Bjarta framtíð þá ert þú að velja pólitískan stöðugleika en ekki rugl. Og birtu en ekki myrkur,“ segir Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar. „Þú ert að velja gleði, heiðarleika og ábyrgð en ekki óþarfa átök og framþróun en ekki afturhald. Þú ert að tryggja ábyrga fjármálastjórn og við höfum verið kjölfestan í farsælu samstarfi á þessu kjörtímabili og það er mikilvægt að við fáum sterkt umboð til að vera það áfram. Næstu fjögur ár eru lykillinn að því að skjóta Reykjavík inn í bjarta framtíð.“