Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

8 Airwaves-bönd sem vert er að bera sig eftir

Mynd: Bagdad brothers / Bagdad brothers

8 Airwaves-bönd sem vert er að bera sig eftir

01.11.2018 - 15:59

Höfundar

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves verður gangsett í tuttugasta skiptið í næstu viku. Eins og svo oft hangir margt og mikið á spýtunni, íslenskt og erlent, þekkt sem óþekkt. Hér eru átta flytjendur sem menningarvefur RÚV mælir með.

Blood Orange

Breski söngvarinn, lagahöfundurinn, upptökstjórinn og fjölhljóðfæraleikarinn Devonté Hynes hefur unnið með listamönnum á borð við Solange Knowles, Sky Ferreira, FKA twigs, Haim, Florence and the Machine, The Chemical Brothers, Kylie Minogue, A$AP Rocky og Blondie. Hann hóf feril sinn sem liðsmaður hljómsveitarinnar Test Icicles, en fer nú fyrir fönkmaskínunni sem er Blood Orange. Í því verkefni ægir saman R og B tónlist, elektróníku, utangarðspoppi, hiphop-töktum, og allra handa framtíðarmúsík, og suðan er algjörlega Hynes. Hans fjórða plata undir því nafni, Negro Swan, er ein sú besta á árinu, eins og fyrsta smáskífan Charcoal Baby, sýnir á fagran og fönkí máta.


Superorganism

Marghöfðaskrímslið og ofurlífveran er fjölþjóða listahópur sem gerir út frá Maine í Nýja-Englandi í Bandaríkjunum og leiddur af japanska söngvaranum Orono. Tónlistarlega svamla þau í Bermúdaþríhyrningnum milli Chillwave, PC Music og K-pop, og myndböndin eru eins og ofskynjunartölvuleikur um sædýrasöfn og geimferðir í grafískri hönnun snemmtíunda áratugarins. Skrýtipopp eins og það gerist skrýtnast.


Ingibjörg Elsa Turchi

Ingibjörg Turchi hefur vakið athygli síðasta rúma áratuginn sem einn svalasti bassaleikari landsins, bæði með indíböndum eins og Rökkurró, Boogie Trouble og Teiti Magnússyni, en hæfileikarnir eru slíkir að hún hefur einnig verið ráðin í meginstraumsverkefni hjá kanónum eins og Stuðmönnum og Bubba Morthens. Hennar fyrsta sóló-plata, þröngskífan Wood Work, Tréverk, kom út seint 2017, og er dáleiðandi ambíent-seiður þar sem lægstu tíðnirnar fá að njóta sín til hins ýtrasta. Það verður gaman að sjá hana flytja þessi verk á sviði á Airwaves.


Cashmere Cat

Ég sá norska rafköttinn Cashmere Cat á Hróarskeldu árið 2014 og var ekki svikinn af framsækinni en og grípandi raftónlist hans. Síðan þá hefur margt á daga hans drifið, hann hefur til að mynda unnið með og endurhljóðblandað Kanye West, The Weeknd, Ariönuna Grande og Miguel. Fyrsta sólóplatan hans sem kom út í fyrra er maxímalísk hljóðsúpa með gestapoppkryddum eins og MO, Ty Dolla Sign og Selenu Gomez. 


Natalie Prass

Bandaríska söng- tónlistarkonan Natalie Prass grúvar eins Rick James á mildu kókaíni og söngröddin falsettar í skokkandi R og B takti á miðlungshraða, sem virðist geta haldið áfram endalaust. Hún flakkar áreynslu laust milli níunda og tíunda áratugarins í hljóm en lagasmíðarnar eru samt alltaf tímalausar. 


Bagdad Brothers

Þeir koma sem ferskur og hressilegur indírokk-andvari til að lofta út í stöðnuðu átótún-hophop-andrúmslofti undanfarinna ára. Bagdad-bræðurnir osmósa út frá sér letilegu og útpældu gítarsándi og söngurinn er kynflöktandi falsetta sem er í senn áreynslulaus og kraftmikil, og textarnir eru súrrealísk samsuða sem malar í kassanum. Þá langar í franskar og okkur langar í þau.


Rejjie Snow

Írskur rappari sem lætur samtímahljóminn sem vind um eyrun þjóta í sinni sköpun og sækir stíft í gullaldar-arfleið tíunda áratugarins með djúp-djössuðum töktum og hvíslandi flæði sem skoppar yfir allar flúðir.


Mueveloreina

Barselóníska tvíeykið Mueveloreina er á raftröppuðum Miðjarðahafs-slóðum í kaótísku furðupoppi sem sækir jöfnum höndum í Eurotechno og Cansei De Ser Sexie. Þau blanda saman klapparhörðu trappi, exótísku hitabeltispoppi og 90‘s house-i og myndmálið vísar í hvítt rusl og gjörningasveitir eins og Die Antwoord, og ætti að vera spennandi á sviði.


Aurora

Norska ungstirnið Aurora kemur frá Bergen og flytur ískalt og femínískt rafpopp sem hefur hrist upp í skandinavísku popplandslagi svo um munar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Síðustu atriðin tilkynnt á Airwaves

Tónlist

50 listamenn bætast við dagskrá Airwaves

Tónlist

Fyrsta hollið á Iceland Airwaves tilkynnt