77 þúsund tonn bætast við loðnukvótann

02.02.2018 - 17:33
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hafrannsóknarstofnun leggur til að heildarkvótinn á loðnuveríðinni verði 285 þúsund tonn. Það þýðir að 77 þúsund tonn bætast við upphafskvóta þann sem gefinn var út í haust.

Í framhaldi þeirra mælinga sem gerðar voru á stærð loðnustofnsins í september og október, var úthlutað 208 þúsund tonna kvóta. Þá kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna úr mælingum síðar um veturinn 2018. Þeim mælingum lauk í vikunni.

Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru tvær mælingar á veiðistofninum. Um 849 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni, en í þeirri síðari mældust um 759 þúsund tonn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun. Þar sem ekki er marktækur munur á niðurstöðum allra þessara mælinga voru þær notaðar saman til framreikninga og ákvörðunar aflamarks samkvæmt aflareglu.

Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849 þúsund tonn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar.

„Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2017/2018 því 285 þúsund tonn, eða 77 þúsund tonnum hærra en ákvarðað var í október síðastliðnum,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi