Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

77% sem láta lífið vegna ofneyslu eru karlar

28.08.2018 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
77 prósent þeirra sem hafa látist á árinu vegna ofneyslu lyfja eru karlmenn, sá yngsti 18 ára gamall. 30 lyfjatengd andlát eru til skoðunar hjá Landlæknisembættinu frá áramótum.  

Samkvæmt nýjustu tölum frá Landlækni eru 30 andlát til skoðunar, sem grunur leikur á að megi rekja til lyfjaeitrunar, þá sérstaklega vegna morfínskyldra lyfja. Þar af eru 23 og 7 konur og er þetta óvenjuhátt hlutfall karla. Almennt er það þó þannig að fleiri karlar látast vegna lyfjaeitrunar en konur.

Þrjú eða fleiri efni í líkamanum

Það samrýmist tölum frá Bandaríkjunum. Þar hefur geisað ópíóíðafaraldur sem dró 72 þúsund Bandaríkjamenn til dauða í fyrra. Þar voru karlar tæplega 70% þeirra sem létu lífið.  Á Íslandi er það einkennandi hjá þeim sem látast vegna lyfjaeitrunar að í flestum tilfellum finnast fleiri en eitt efni í þeim látnu. Ópíóíðar hafa greinst í 18 tilfellum af þessum 30 á þessu ári. Hjá flestum fundust þrjú eða fleiri efni í líkamanum.

Í þeim andlátum sem lyfjateymi embættisins hefur haft til skoðunar er gróflega hægt að skipta fólkinu í tvo hópa eftir aldri. Það er annars vegar fólk á aldrinum 20 til 40 ára sem hefur tekið ópíóíða eða örvandi lyf í bland við ólögleg efni, hins vegar fólk á aldrinum 40 til 80 ára sem hefur tekið inn þunglyndislyf, róandi lyf eða svefnlyf og oft með áfengi.

Mikið af Xanax í umferð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er einnig með tæplega 30 mál til rannsóknar vegna lyfjatengdra andláta. Meðalaldur þeirra sem hafa látist á árinu er 35 ár, sá yngsti er 18 ára og elsti 65 ára. Að sögn lögreglu er áberandi mikið af lyfjum í umferð sem eru ekki í almennri sölu hér á landi, líkt og kvíðalyfið xanax. Samkvæmt Landlæknisembættinu fengu 13 af þeim sem hafa látist litlu eða engu ávísað af sterkum verkjalyfjum á þessu ári. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV