Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

7500 gistinætur afbókaðar vegna dýrtíðar

07.05.2017 - 19:37
Mynd: RÚV / RÚV
Pakkaferðir þýskra ferðamanna til landsins næsta vor, fyrir þrjú til fjögur hundruð milljónir króna, hafa verið afbókaðar hjá íslenskum ferðaheildsala. Spænskur ferðasali segir að Ísland sé að verða undir í samkeppni við ódýrari áfangastaði.

Ferðaskrifstofan Katla DMI hafði bókað ferðir um ellefu hundruð þýskra ferðamanna hingað til lands næsta vor. Samtals áttu gistinæturnar að vera 7500. og heildarverðið þrjú til fjögur hundruð milljónir króna. En núna hafa þær verið afbókaðar. Í mars var greint frá því í fréttum RÚV að fimmtán hundruð afbókanir hefðu borist norsku ferðaheildsölufyrirtæki.

„Þetta er á heildsölumarkaði sem við erum að bjóða þessar vörur og eftir að hafa boðið þetta viðskiptavinum sínum, sem líka eru endursöluaðilar, fengum við þetta aftur í hausinn. Þetta er of dýrt, segir Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Kötlu DMI.

Verðið hafi hækkað um þrjátíu prósent á einu ári en verðlag hafi hækkað um tvö prósent í Þýskalandi. „Við fundum náttúrulega fyrir þessari afbókun. Þetta var sería sem átti að vera nokkuð áberandi hjá okkur næsta sumar, bæði hérna á Hótel Kletti og Hótel Örk,“ segir Geir Gígja, sölu- og markaðsstjóri fyrir Hótel Klett og Hótel Örk. „Það sem var kannski sérstaklega alvarlegt við þetta að okkar mati, var að þarna er í rauninni verðlagið orðið þannig að viðskiptavinur Kötlu DMI erlendis reynir ekki að selja selja ferðirnar, telur sig ekki geta selt þær,“ segir Geir.

Iceland Tours ferðaskrifstofur eru starfandi víða um heim. „Þegar viðskiptavinir koma á skrifstofur okkar geta þeir vel borið saman verð á Islandi og öðrum áfangastöðum. Til dæmis kostar það álíka mikið að vera í tvær vikur í Bandaríkjunum með fjölskyldunni, eins og að vera í eina viku á Íslandi. Og margir ákveða að fara frekar í tveggja vikna frí fyrir sama verð og vika hér kostar,“ segir David Fernández Lorca, hjá Iceland Tours á Spáni. 

„Þetta er soldið tónninn sem við erum að fá til baka af heildsölumarkaðnum, að Ísland er orðið of dýrt 2018 og margir sem hafa verið að sinna því mjög vel undanfarin ár, ætla að einbeita sér að einhverju öðru núna,“ segir Pétur. Til að mynda hafi verð á ferðum til Noregs lækkað.

Geir segir viðskiptaumhverfi gisistaða undarlegt. Fyrir tveimur árum hafi virðisaukaskatturinn hækkað um helming. „Gistináttaskatturinn verður þrefaldaður í haust, styrking krónunnar hleypur á tugum prósenta. Síðan erum við líka að horfa upp á hækkun virðisaukaskatts uppá hundrað og eitthvað prósent. Þetta er í raun og veru alveg galið,“ segir Geir. 

Lorca telur að verði af því að virðisaukaskatturinn hækki, hafi það sínar afleiðingar. „Nafnið Ísland yrði ekki lengur þekkt fyrir mikla náttúrufegurð, heldur yrði í staðinn aðallega þekkt fyrir að vera mjög dýrt,“ segir Lorca.