Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

750 milljarða skuldir felldar niður

21.02.2012 - 20:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Skuldir fyrirtækja, auðmanna og heimilanna í landinu hafa verið felldar niður í stórum stíl frá hruni, um nærri 750 milljarða króna. Tæpur þriðjungur er vegna heimilanna í landinu, afgangurinn eru skuldir fyrirtækja og auðmanna.

Áætlað hefur verið, að kostnaður við niðurfærslu skulda heimila með verðtryggð lán næmi um 200 milljörðum króna. Deilt er um hversu raunhæfar slíkar tillögur eru og bent á að slík niðurfelling gæti orðið fjármálstofnunum um megn.

Þær hafa hins vegar fellt niður gríðarháar skuldir frá hruni, nærri 750 þúsund milljónir. Einungis um þriðjungur þeirra niðurfellinga er vegna heimilanna í landinu:

·         Niðurfærsla vegna 110% leiðar er samtals 43,6 milljarðar króna
·         Niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar nemur alls 6,2 milljörðum króna
·         Niðurfærsla vegna endurútreiknings erlendra fasteignalána nemur 108 milljörðum króna
·         Niðurfærsla vegna endurútreiknings bílalána er samanlagt 38,5 milljarðar króna
          Samtals 196,3 milljarðar

Þessi upphæð er mun lægri en niðurfellingar skulda fyrirtækja og eignarhaldsfélaga, sem mörg hver voru og eru enn í eigu útrásarvíkinga. Sem dæmi má nefna fimm einstaklingar og fyrirtæki fengu meira niðurfellt en öll heimilin í landinu.

Arionbanki felldi niður 30 milljarða skuld 1998 ehf, sem var að stórum hluta í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Landsbankinn felldi niður allt að 50 milljarða skuld Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum.
Arionbanki felldi niður skuldir Kjalar, eignarhaldsfélags Ólafs Ólafssonar, upp á 88 milljarða króna.
Landsbankinn felldi niður 20 milljarða skuld Guðmundar Kristjánssonar í Brimi.
Skuldir N1 upp á 17 milljarða voru felldar niður.

Þessar niðurfellingar eru samtals 205 milljarðar króna eða átta þúsund milljónum meira en heimilin hafa fengið niðurfellt.

Samkvæmt yfirliti Eftirlitsnefndar um skuldaaðlögun, voru skuldir fyrirtækja, sem skulduðu meira en þúsund milljónir lækkaðar um 548,5 milljarða frá hruni og fram á haustið 2011. Langstærsti hlutinn er vegna fjárfestinga- og eignarhaldsfyrirtækja. Skuldir þeirra hafa verið lækkaðar um 388 milljarða. Það er næstum upp á krónu tvöföld sú upphæð sem heimilin fengu fellda niður.

Þá eru ótalin niðurfelling skulda þeirra fyrirtækja sem skulduðu minna en milljarð króna.