Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

746 fíkniefnaauglýsingar á 20 mínútum

Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Á tuttugu mínútum rakst Snærós Sindradóttir á 746 auglýsingar fyrir fíkniefni á samfélagsmiðlum. Snærós var umsjónarmaður söfnunarþáttarins Vaknaðu ásamt Sigmari Guðmundssyni. Í þættinum var fjallað um fíkniefnaneyslu ungmenna á Íslandi.

Sérstakir spjallhópar tileinkaðir sölu fíkniefna

Snærós hlóð niður spjallforriti, sem líkist spjallappinu Messenger, og er í raun samfélagsmiðill. Fjöldinn allur, eða hundruð spjallhópa í forritinu, eru helgaðir fíkniefnasölu á Íslandi, segir hún í samtali við fréttastofu.

Fyrr en varði var hún komin í fimm spjallhópa sem höfðu þann eina tilgang að auglýsa og óska eftir fíkniefnum. Oft fylgja auglýsingunum símanúmer seljenda. Þá eru margir seljenda á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu og reiðubúnir til þess að færa kaupendum efnin þar sem þau eru stödd hverju sinni.

Framboð fíkniefna fjölbreytt

Snærós sagði að fíkniefnin sem verið væri að auglýsa, væru af ýmsum toga. Bæði ólögleg; svo sem kannabisefni og lögleg; svo sem sterk verkjalyf eins og oxycontin, sem inniheldur ópíóíða. 

Sólrún Freyja Sen dagskrárgerðarmaður sagði að nú væri auðveldara að ná sér í efni en áður. „Þegar þú ert að skoða fíkniefnasíður í gegnum app eða Facebook, þá sérðu ekki bara gras eða Xanax eða það sem þú ætlaðir kannski að kaupa þér, heldur er allt hitt líka. Þannig að kynnin eru þar, við alls konar efni, sem þú myndir kannski ekki annars kynnast fyrr en eftir einhvern tíma í neyslu.“ 

Þátturinn Vaknaðu tengist átakinu Á allra vörum sem leggur samtökunum Ég á bara eitt líf lið í ár.