Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

732 lík fundin í Mósambík, Malaví og Simbabve

24.03.2019 - 06:10
Erlent · Hamfarir · Afríka · Malaví · Mósambík · Simbabve · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Lík 732 manneskja sem fórust í fellibylnum Idai og flóðunum í kjölfar hans hafa nú fundist samkvæmt opinberum tölum. Flest þeirra í Mósambík, eða 417, en hin í Simbabve og Malaví. Hundraða er enn saknað svo vitað sé og lítið vitað um stöðuna á stórum svæðum sem urðu illa úti í hamförunum. Stjórnvöld í Mósambík óttast að yfir 1.000 manns hafi farist þar í landi.

Fellibylurinn Idai skall á löndunum þremur á fimmtudag í síðustu viku. Flóðin af hans völdum færðu þúsundir ferkílómetra lands á kaf í allt að sex metra djúpt vatn sem sjatnar afar hægt. Kólera og malaría er farin að láta á sér kræla á flóðasvæðunum og mikill og brýnn skortur er á hreinu vatni og öðrum nauðþurftum.

Hundruð þúsunda hafa misst allt sitt og hafast ýmist við í neyðarskýlum, hjá ættingjum eða úti undir berum himni nærri ónýtum heimilum sínum. Heilu bæirnir hafa þurrkast út, þar á meðal borgin Beira, þar sem hálf milljón manns bjó. Talsmenn Rauða krossins og Rauða hálfmánans áætla að allt að 90 prósent allra mannvirkja í borginni hafi eyðilagst.