Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

73 bjargað á Miðjarðarhafi

19.09.2019 - 06:42
Mynd með færslu
 Mynd: Læknar án landamæra - Twitter
Áhöfn norska björgunarskipsins Ocean Viking, sem starfar með samtökunum Læknum án landamæra, bjargaði í gær 73 flóttamönnum, körlum, konum og börnum, af yfirfullum gúmbjörgunarbát undan Líbíuströnd. Á twittersíðu Lækna án landamæra kemur fram að nokkur þeirra sem um borð voru hafi verið löðrandi í eldsneyti, sem lekið hafði úr eldsneytisgeyminum.

Ocean Viking kom að bátnum skömmu fyrir sólsetur í gær, um 30 mílur frá strönd Líbíu. Alls eru nú 109 flóttamenn um borð í björgunarskipinu, og hefur skipstjórinn sent út beiðni um örugga höfn fyrir skjólstæðinga sína. Á Twittersíðu Lækna án landamæra kemur fram að siglingayfirvöld í Líbíu hafi þegar svarað kallinu og veitt fólkinu landgönguleyfi í hafnarborginni Khoms. Þar sem Líbía flokkast ekki sem öruggt land, segir í færslu samtakanna, hefur skipstjórinn beðið um annan og tryggari valkost. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV