Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

72 prósent umferðar fara um Vaðlaheiðargöng

23.10.2019 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Um sjötíu og tvö prósent umferðar á milli Akureyrar og Fnjóskadals fóru um Vaðlaheiðargöng fyrstu níu mánuði ársins. Á sama tíma hefur heildarumferðin yfir Vaðlaheiði aukist um tæp sex prósent. Framkvæmdastjóri ganganna segir að þau eigi eftir að sanna gildi sitt enn frekar í vetur.

Vaðlaheiðargöng voru opnuð í lok árs í fyrra. Það sem af er ári hafa rúmlega 422 þúsund bílar ekið um göngin. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðaganga segir að áætlanir félagsins hafi gert ráð fyrir að 90 prósent umferðar um Vaðlaheiði færu um göngin. Það hafi ekki gengið eftir hingað til því hlutfallið sé um sjötíu og tvö prósent.

„Við gerðum ráð fyrir að á þessu rekstrarári værum við með á milli 800 og 900 milljónir í veggjöld og tekjur. Við erum komnir núna með eitthvað aðeins yfir 500 milljónir,“

Er það nóg fyrir rekstur ganganna?

„Það er nóg fyrir að reka göngin já, og viðhald og rekstur ganganna sjálfra, en það er aðeins undir þeim markmiðum sem við vorum með.“ segir Valgeir.

Valgeir segir að rekstraráætlanir verði endurskoðaðar þegar meiri reynsla verður komin á notkun ganganna. Í sumar var umferð um Vaðlaheiðargöng undir væntingum og margir sem kusu að fara yfir Víkurskarð. 

„Það mun alveg klárlega breytast núna yfir vetrarmánuðina enda eru göngin samgöngubót helst yfir vetrartímann,“ 

En hvernig er með heildar umferðina, hefur hún breyst eitthvað á þessum tíma sem göngin hafa verið starfandi?

„Heildarumferðin göng og Víkurskarð er núna 5,9 prósent meiri en hún var á sama tíma í fyrra. Á móti kemur að umferð ferðamanna í sumar á Norðurlandi er í rauninni á öðrum mælistöðum Vegagerðarinnar að standa í stað miðað við í fyrra. “ segir Valgeir.