Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

71% ánægð með áætlun um losun hafta

21.07.2015 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikill meirihluti svarenda er ánægður með aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um losun gjaldeyrishafta, í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Fjörutíu og fjögur prósent segjast þó lítið eða ekkert hafa kynnt sér hana.

 

22% segjast hafa kynnt sér áætlunina vel og um þiðjungur hvorki vel né illa. Karlar segjast almennt hafa kynnt sér áætlunina betur en konur, fólk yfir sextugu betur en yngra fólk, kjósendur stjórnarflokkanna betur en aðrir og þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru líklegri til þess en þeir sem hafa minni menntun. Stuðningsmenn Bjartrar framtíðar sögðust síst hafa kynnt sér áætlunina, en 60% svarenda úr þeirra röðum sögðust lítið sem ekkert hafa kynnt sér hana.

71% svarenda er ánægt með áætlunina. Íbúar Reykjavíkur eru almennt ánægðari með hana en þeir sem búa utan Reykjavíkur og þeir tekjuhæstu eru ánægðari en þeir tekjuminni. Þeir sem kjósa myndu stjórnarflokkana í Alþingiskosningum ef gengið yrði til atkvæða í dag eru talsvert ánægðari en þeir sem kjósa myndu aðra flokka - til að mynda eru 90% kjósenda Framsóknar og 94% kjósenda Sjálfstæðisflokksins ánægð með hana. Minnst er ánægjan meðal kjósenda Vinstri grænna, eða 49%.

Könnunin var gerð á netinu, svarhlutfall var 55,5% og 1431 var í úrtaki.

hallaoddny's picture
Halla Oddný Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður