Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

70.000 sagt að flýja strax vegna flóðahættu

23.09.2017 - 00:25
epa06218424 A child plays in a flooded street in the aftermath of Hurricane Maria, in Catano, Puerto Rico, 21 September 2017. .   Hurricane Maria, the most powerful storm to hit Puerto Rico in nearly a century, has knocked out power, caused flooding and
Úrhellisrigning fylgdi fellibylnum Maríu og olli víða flóðum. Bresti stíflugarðurinn í Guajataca-ánni gæti hins vegar orðið mannskætt hamfaraflóð, þar sem uppistöðulónið að baki hans er um 5 ferkílómetrar að flatarmáli. Mynd: EPA-EFE - EFE
Um eða yfir 70.000 Púertó-Ríkönum hefur verið gert að rýma heimili sín og forða sér hið snarasta eftir að sprunga myndaðist í stíflu svo flæða tók í gegn. Tekist hefur að hemja lekann og stýra honum að nokkru leyti en óttast er að stíflugarðurinn geti gefið sig þá og þegar, vegna mikilla vatnavaxta. Úrkoman í fjalllendinu umhverfis stífluna síðan fellibylurinn María færði sig á haf út síðdegis á miðvikudag mældist 400 millimetrar.

Bandaríska veðurstofan gaf út viðvörun, sagði ástandið gríðarlega hættulegt og hvatti alla sem búa neðan stíflunnar til að forða sér strax, þar sem líf þeirra væri í bráðri hættu. Fjölmargar rútur voru sendar á vettvang og hafa þær verið í stöðugum ferðum frá hættusvæðinu við ána Guajataca frá því að sprungan uppgötvaðist.  

316 metra há stíflan var byggð 1928 og myndar um fimm ferkílómetra uppistöðulón í ánni. Öll byggð meðfram ánni, neðan stíflunnar, er því í bráðri hættu.

Tveimur dögum eftir að versta fárviðrinu slotaði er mikill meirihluti íbúa Púertó Ríkó enn án rafmagns og fjarskipti öll í lamasessi. 1.360 af 1.600 farsímamöstrum á eynni eyðilögðust í veðurofsanum og 85 prósent allra net- og símalína, jafnt ofanjarðar sem neðan, hrukku úr sambandi. Margir vegir eru einnig ófærir enn.

Vegna þessa hefur náðst afar takmarkað samband við 40 af 78 sveitarfélögum landsins og fréttir þaðan fáar og ónákvæmar eftir því. Afleiðingar fellibylsins Maríu, sem ríkisstjórinn Ricardo Rossello segir mesta tortímingarafl sem skollið hefur á Púertó Ríkó í heila öld, gætu því verið enn verri en þær sem þegar blasa við. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV