Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

700 fleirtyngd börn í móðurmálskennslu

17.01.2016 - 19:13
Það er gaman að tala bæði íslensku og tékknesku því þá getur maður talað við fleira fólk segir 7 ára tvítyngdur drengur. Hann lærir sitt annað móðurmál ásamt 700 öðrum börnum í Fellaskóla á laugardögum.

Renata Emilsson Pesková, formaður samtakanna Móðurmáls, samtaka um tvítyngi, segir að þetta sé viðbót við hefðbundið nám barnanna. Tuttugu og fimm mál eru kennd í Fellaskóla og Hólabrekkuskóla á laugardögum. Kennslan á vegum samtakanna Móðurmáls og er með stuðning frá Reykjavíkurborg.

„Við sameinuðumst pólska skólanum síðasta haust þannig að við erum núna með yfir 700 börn.“

Dæmi eru um að boðið sé upp á móðurmálskennslu sem valfag í skólum en það er ekki algengt og er móðurmálskennslan yfirleitt viðbót við venjulegt skólastarf barnanna.

„Þetta er því miður ekki hluti af skólanum. Það er kannski æskilegt af því að þetta er nám sem fer fram hér þetta er meira svona viðbótarnám eins og við sjáum um það núna.“

Jóhannes Guðmundsson 7 ára, segir að það sé doldið gagman að tala bæði íslensku og tékknesku því þá er hægt að tala við fleira fólk. Og Laila Chaabiya 6 ára talar, ensku, íslensku, arabísku og pólsku.  

Sum börnin eru úr nágrannabyggðum Reykjavíkur en einnig hefst móðurmálskennsla á næstunni í Reykjanesbæ.

Renata segir að stuðningur við kennsluna komi frá Reykjavíkurborg.

„En við vildum miklu meiri stuðning frá sveitarfélögum og ríkinu af því þetta er ekki bara Reykjavík heldur miklu stærra mál og við vildum bara yfirleitt að það sé meiri þekking í samfélaginu um fjölmenningu og fjölmenningarlegt samfélag og kosti þess að tala fleiri tungumál.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir