Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

70 ár frá því Indland klofnaði í tvennt

15.08.2017 - 07:42
Mynd með færslu
 Mynd: Life
Í dag, 15. ágúst, eru 70 ár liðin frá því að breska nýlendan Indland klofnaði í tvö sjálfstæð ríki, Indland og Pakistan. Þann 14. ágúst 1947 lýsti Pakistan yfir sjálfstæði sínu og daginn eftir,15. ágúst, gerði Indland slíkt hið sama. Bæði ríkin höfðu þá tilheyrt sömu einingu, nýlendu Breta á Indlandsskaga, í nærri tvö hundruð ár, og skilnaður þeirra varð erfiður og blóðugur.

Dagana, vikurnar og mánuðina eftir klofninginn lentu um fimmtán milljónir íbúa nýju ríkjanna tveggja á hrakhólum. Allt að milljón manna týndu lífi, myrtir af meðborgurum sínum eða vesluðust upp á hrakningum, og ótal konum var nauðgað.

Í fyrrasumar fjallaði Vera Illugadóttir um skiptingu breska Indlands í sjálfstæðu ríkin Indland og Pakistan í útvarpsþættinum Í ljósi sögunnar á Rás 1. Í fyrri hluta umfjöllunarinnar er sagt frá aðdraganda skiptingarinnar og mönnunum sem áttu hvað mestan þátt í því að þessi varð raunin. 

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Þegar Indland var rifið í tvennt: fyrri hluti

Vildu sjálfstætt og sameinað Indland

Skrið komst á sjálfstæðishreyfingu Indverja undir lok nítjándu aldar. Indverska þjóðarráðið, Indian National Congress, var stofnað 1885 og áttu það eftir að leiða baráttuna til sjálfstæðis, lengi undir stjórn frelsishetjunnar Mohandas Gandhi.

Lengst af var það vilji allra, bæði Indverja og Breta, að hið víðfeðma og fjölbreytta Indland yrði sjálfstætt sameinað og óskipt.

Þegar indverskir múslimar — sem voru þá um fjórðungur þjóðarinnar — stofnuðu svonefnt Múslimabandalag við upphaf tuttugustu aldar, var það aðallega til að standa vörð um eigin hagsmuni í ríki þar sem hindúar voru í miklum meirihluta.

Ósætti leiddi til blóðsúthellinga

En eftir því sem leið á öldina fóru leiðtogar Múslimabandalagsins, með leiðtogann Muhammad Ali Jinnah í broddi fylkingar, að krefjast meira: sjálfstæðs ríkis í þeim svæðum Indlands þar sem múslimar voru í meirihluta.

Smátt og smátt jókst ósætti innan sjálfstæðishreyfingar Indverja og spenna og átök mögnuðust upp milli óbreyttra hindúa og múslima í indverskum borgum og bæjum — nokkuð sem endaði með martraðarkenndu morðæði í Kalkútta í tæpu ári áður en ríkin tvö urðu loks sjálfstæð.

Og þeirra átti eftir að bíða enn frekari blóðsúthellingar. 

Slóð líka vísaði veginn yfir landamærin

Á bilinu tólf til fimmtán milljónir manns hröktust á flótta frá heimilum sínum þegar breska Indlandi var skipt upp í tvö sjálfstæð ríki, Indland og Pakistan, árið 1947, í einum mestu fólksflutningum mannkynssögunnar. Hundruð þúsunda komust aldrei þó á leiðarenda.

Í öðrum hluta Í ljósi sögunnar er fjallað nánar um þessa miklu ólgutíma og raddir eftirlifandi flóttafólks heyrast.

Mynd: LIFE / LIFE
Þegar Indland var rifið í tvennt: annar hluti

Margra kílómetra langar flóttamannafylkingar 

Í aðdraganda skiptingarinnar magnaðist úlfúð milli hindúa og múslima sem áður höfðu búið í sátt og samlyndi á Indlandi, við sjálfstæði sáu margir sér þann kost vænstan að flýja yfir nýteiknuð landamærin. 

Langflestir fóru yfir landamærin í vestri, í gegnum hið fjölbreytta Punjab-hérað sem nú hafði verið klofið í tvennt með línu á bresku korti. Múslimar flúðu vestur til Pakistan, Hindúar og Síkar austur til Indlands.

Þeir fóru með öllum leiðum — í rútum, um borð í troðfullum lestum, og svo fótgangandi, í fjölmennum fylkingum sem hlykkjuðust áfram langar leiðir, eins og mennskar úlfaldalestir, og teygðu sig jafnvel tugi kílómetra.

Löng ganga við erfiðar aðstæður

Flóttamennirnir voru flestir illa búnir til langferða, höfðu yfirgefið heimili sín í flýti og aðeins tekið með sér dýrmætustu eigur sínar og litlar vistir. Aðstæður voru erfiðar, enda rigningartímabil og bæði heitt og rakt.

Þúsundir komust aldrei á leiðarenda, heldur fórust á leiðinni úr þorsta, hungri eða sjúkdómum, sem grasseruðu meðal veikburða göngufóks.

Flóttafólkið var líka auðveld bráð vígasveita eða blóðþyrstra múga sem fylgdu á hæla þeirra eða sátu fyrir þeim á leiðinni, og þannig létu ótal margir lífið.

Vera Illugadóttir fjallaði um skiptingu breska Indlands í sjálfstæðu ríkin Indland og Pakistan í útvarpsþættinum Í ljósi sögunnar á Rás 1 sumarið 2016. Þættirnir voru á dagskrá 10 og 17. ágúst.

 

vefritstjorn's picture
Vefritstjórn
verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður