Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

69 þúsund umsóknir frá 61 landi

02.09.2014 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd:
69 þúsund umsóknir um lækkun höfuðstóls húsnæðislána bárust ríkisskattstjóra frá rúmlega 100 þúsund manns í 61 landi. Forsætisráðherra segir ánægjulegt hve margir sóttu um. Það sýni að fólk hafi beðið eftir úrræðinu.

Forsætisráðherra ánægður
Frestur til að sækja um lækkun á höfuðstóli verðtryggðra húsnæðislána rann út á miðnætti. 105 þúsund einstaklingar sendu inn 69 þúsund umsóknir, svipað og gert hafði verið ráð fyrir, segir forsætisráðherra, jafnvel heldur fleiri. „Sem er auðvitað mjög ánægjulegt að þátttakan skuli hafa verið svona mikil. Það sýnir að þetta var eitthvað sem beðið var eftir og menn voru tilbúnir til að taka þátt í. Nú bíðum við bara eftir að sjá niðurstöður útreikninganna. En þetta er vissulega gleðilegt að sjá að þetta skuli hafa virkað svona vel.“

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að 2.300 umsóknir hafi borist frá 60 löndum - fyrir utan það sem barst frá Íslandi. Þar af 1.100 frá Noregi. Næstflestar frá Danmörku, þá Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Óvarlegt að skjóta á hvað hver fær
Nú þarf að reikna út hvað kemur í hlut hvers. Tryggvi Þór Herbertsson verkefnisstjóri telur að í byrjun október verði það ljóst og að í nóvember verði hægt að lækka höfuðstólinn hjá þeim sem samþykkja útreikninginn strax. En hvað getur meðaljóninn gert ráð fyrir að höfuðstóllinn lækki mikið? „Ég treysti mér ekki til að giska á það, en það voru í upphafi settar fram getgátur um upphæðir miðað við meðalheimili og meðalskuldir. En á meðan það er verið að reikna þetta út held ég að það sé óvarlegt að skjóta á þetta.“

Í athugasemd með frumvarpi um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána er gert ráð fyrir að meðal niðurfærsla á hvert heimili verði rúmlega 1,1 milljón króna. Höfuðstóllinn verði lækkaður um hálfa til eina og hálfa milljón hjá tæplega helmingi heimila. Ekki verður hægt að fá meiri höfuðstólslækkun en fjórar milljónir króna.