68% andvíg endurkomu varnarliðsins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tæpur þriðjungur þátttakenda í kosningaprófi RÚV er fylgjandi því að aðstaða fyrir hersveitir verði byggð upp á Keflavíkurflugvelli á ný.

Tæp 70 prósent eru því hins vegar frekar eða mjög ósammála. Tæplega 31.900 manns hafa svarað fullyrðingunni: „Bandaríkjaher á að byggja upp aðstöðu fyrir hersveitir á Keflavíkurflugvelli á ný“ á vefsíðu RÚV.

Alls sögðust 68 prósent vera ósammála fullyrðingunni, þar af voru liðlega 13.700 sem voru henni algjörlega ósammála, eða 43 prósent þeirra sem tóku þátt. Þá voru rúmlega 2.800 manns fyllilega sammála fullyrðingunni, tæp níu prósent þátttakenda.  

Hægt er að taka kosningaprófið á ruv.is en rétt er að geta þess að prófið er til gamans gert en getur gefið vísbendingar um það með hvaða frambjóðanda fólk eigi mesta samleið með.

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV