Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

64 prósent nýrra íbúða í miðborginni óseld

27.06.2019 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Tæpir tveir þriðju nýrra íbúða í miðborginni er óseldur, eða um 330 af 519 íbúðum. Það eru um 64 prósent af framboðinu. Fjárfestar hafa endurmetið stöðuna og og gera ráð fyrir mögulegum hverfandi hagnaði vegna dræmrar sölu.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. 

Þá gera fjárfestar ráð fyrir allt að 50 prósent lengri sölutíma, með tilheyrandi auka kostnaði, svo sem vaxtakostnaði. Markaðurinn hafi hreyfst lítið í vor. 

Sumar nýju íbúðanna, sem enn eru óseldar, komu á markað síðla árs 2017. Gert er ráð fyrir að um 240 miðborgaríbúðir bætist við markaðinn á næstunni og á annað þúsund íbúðir eru á teikniborðinu, eða hafa verið settar á ís.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru fjárfestar ekki reiðubúnir að leggja fé í uppbyggingu íbúða í miðborginni við slíkar aðstæður.

Meðalverð íbúðanna er 55 milljónir króna. Samanlagt söluverð óseldu íbúðanna nemur því um 18 milljörðum.

Íbúðirnar eru ætlaðar mismunandi markhópum og innan þeirra eru fjölbreyttar íbúðir. Dýrustu íbúðirnar geta kostað á þriðja hundrað milljónir, en sala lúxusíbúða hefur verið hæg undanfarið.