
64 metra „fituhlunkur“ í ensku holræsi
Andrew Roantree, yfirmaður skolpmála hjá South West-veitum, segir þetta stærsta fituhlunk sem fundist hefur á þessum slóðum síðan fyrirtækið tók við veitukerfinu og hvetur fólk til að hætta að „ala“ hann.
„Sem betur fer fannst hann í tæka tíð og ógnar því ekki baðströndinni. Ef þið standið við eitt áramótaheit þetta árið, látið það þá vera heit um að hella ekki fituefni, olíum eða steikarfeiti í niðurföllin og sturta ekki blautþurrkum niður úr klósettunum. Setjið lagnirnar ykkar í megrun og hættið að ala fituhlunkinn,“ segir hann í samtali við blaðamann The Guardian.
Veitufyrirtækið segir að hlunkurinn stækki með svipuðum hætti og snjóbolti sem hleður utan á sig eftir því sem hann rúllar lengra. Blautþurrkur sem sturtað er niður hlaði utan á sig alls kyns feiti sem storkni og hlaði utan á sig fleiri blautþurrkum og enn meiri feiti og svo koll af kolli uns úr verður risavaxinn og grjótharður fituhlunkur. Áætlað er að hefja vinnu við að brjóta hlunkinn niður í næsta mánuði, ef úrkoma verður ekki of mikil. Vinnuaðstæður þeirra sem það gera eru ekkert til að hrópa húrra fyrir og kallar verkið á hvort tveggja hlífðargalla frá toppi til táar og súrefnisgrímur.
2017 fannst enn stærri fituhlunkur í iðrum hins risavaxna skolpkerfis Lundúnaborgar. Sá var 250 metra langur og vó 130 tonn.