Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

64 ára kraftlyftingakona slær met

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Valdimarsson

64 ára kraftlyftingakona slær met

20.06.2016 - 15:57
Dagmar Agnarsdóttir, 64 ára kraftlyftingakona og listmálari, hafnaði í þriðja sæti í sínum aldurs- og þyngdarflokki á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum. Hún sló í leiðinni nokkur Íslandsmet. Dagmar segir að þetta sé ótrúlega skemmtileg íþrótt og gefandi. „Þetta er svo ofsalega gaman og ég æfi með svo góðum hópi kvenna.“ Dætur hennar hafi tekið hana með sér í kraftlyftingar fyrir þremur árum síðan. Þetta er hennar fyrsta heimsmeistaramót.

Mótið fer fram í smábænum Killeen í Texas dagana 19.-26. júní. Dagmar fékk allar lyftur sínar dæmdar gildar. Hún tók 82,5 kg í hnébeygju, 42,5 kg í bekkpressu og 115 kg í réttstöðulyftu. Hún bætti þar með Íslandsmet öldunga I og II. 

Ómar Valdimarsson, sonur Dagmarar, segir að fjölskyldan hafi fylgt henni til Texas til að styðja við bakið á henni. Börn og barnabörn eru með í för. „Fyrst hún fékk þetta tækifæri þá vildum við styðja við bakið á henni. Svo stóð hún sig svona frábærlega vel í gær, við vorum bara í himnasælu,“ segir Ómar. 

Gry Ek, varaformaður kraftlyftingafélags Íslands, segir að Dagmar sé glæsilegur fulltrúi Íslands. Hún sýni að það sé sama hve gamall maður verður, það sé alltaf hægt að taka þátt. „Við erum afskaplega stolt af henni.“