Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

600-700 manns í Reykjanesbæ gætu misst vinnuna

28.03.2019 - 11:24
Mynd með færslu
Reykjanesbær. Mynd úr safni. Mynd:
Sex til sjö hundruð íbúar í Reykjanesbæ gætu misst vinnuna vegna gjaldþrots WOW Air, að sögn Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarstjórnar. Flugfélagið hætti rekstri í morgun og öllu flugi var aflýst.

„Þetta er mikið áfall fyrir íslensku þjóðina og sérstaklega Reykjanesbæ. Við höfum verið að funda með Vinnumálastofnun og verkalýðshreyfingunni á undanförnum vikum,“ segir Friðjón. Bæjaryfirvöld hafa vonað það besta en jafnframt reynt að undirbúa sig sem best. 

„Við gerum ráð fyrir að þetta séu um sex til sjö hundruð manns [ í Reykjanesbæ innsk. blm. ] sem verða fyrir áhrifum af þessu áfalli. Þetta er blanda af starfsmönnum WOW og starfsmönnum allra þeirra fyrirtækja sem koma að þessum flugrekstri; hlaðmenn, veitingastaðir, rútufyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki. Þannig að í heildina er ég að hugsa um að þetta sé í kringum 6-700 manns, en við fáum nánari tölur um þetta á næstu dögum.“ 

Nánar veður rætt við Friðjón í Samfélaginu á Rás 1 eftir fréttir.