Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

60 ljósmæður leggja niður störf í dag

23.04.2018 - 05:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnst 60 af rúmlega 90 ljósmæðrum í heimaþjónustu munu leggja niður störf frá og með deginum í dag og ekki taka til starfa á ný fyrr en samningur við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur til þeirra verði undirritaður. Ellen Bára Valgerðardóttir er ljósmóðir á Landspítalanum en jafnframt sjálfstætt starfandi í heimaþjónustu. Hún er ein þeirra sem leggur niður störf í dag og segist eiga von á að hinar 30 heimaþjónustu-ljósmæðurnar fylgi fordæmi þeirra.

Greint var frá fyrirhuguðum aðgerðum hópsins á Vísi.is í gær. Telur Ellen aðgerðirnar munu auka mjög álag á ljósmæður á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans og bitna tilfinnanlega á nýbökuðum mæðrum, börnum þeirra og mökum. Ein áþreifanlegasta afleiðing aðgerðanna verði jú sú, að nýbakaðar mæður, einkum frumbyrjur, verði að liggja lengur á sængurkvennadeildinni en ella.

Ellen segir heimaþjónustuljósmæður hafa samið við Sjúkratryggingar Íslands fyrir páska að og samningurinn hafi verið sendur rakleitt í heilbrigðisráðuneytið. Þar liggi hann hins vegar enn, óundirritaður, og því grípi ljósmæður til þessa úrræðis.

Kemur ráðherra á óvart

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir í Morgunblaðinu í dag, að aðgerðir ljósmæðra komi henni á óvart. Hún hafi ekki heyrt neinn ávæning af aðgerðunum fyrr en hún frétti af þeim í fjölmiðlum í gær, með sólarhringsfyrirvara. Sjálf hafi hún ekkert heyrt frá ljósmæðrunum.

Aðspurð um ástæðu þess, að tilbúinn samningur Sjúkratrygginga við ljósmæður í heimaþjónustu hafi legið svo lengi óundirritaður á hennar borði, segir Svandís að bera þurfi tiltekna þætti samningsins undir Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, áður en hægt sé að ganga endanlega frá honum. Segist hún ætla að funda um málið í ráðuneytinu í dag. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV