Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

60 keyptu aðgerð á Klíníkinni á meðan 600 bíða

23.06.2018 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sextíu manns fóru í liðskiptaaðgerð hjá einkareknu sjúkrastofunni Klíníkinni í fyrra, og greiddu rúma milljón fyrir. Heilbrigðisráðherra segir að þetta séu ekki nógu margir til að hægt sé að tala um tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Meira en 600 manns eru á biðlista eftir slíkri aðgerð hjá Landspítalanum. 

Ríkið niðurgreiðir eingöngu liðskiptaaðgerðir hérlendis ef þær eru gerðar á ríkisreknum heilbrigðisstofnunum, ekki ef þær eru gerðar á einkastofum. 
Í fyrra fóru sextíu manns í liðskiptaaðgerð hjá einkareknu sjúkrastofunni Klíníkinni. Slíkt er ekki á allra færi, þar sem aðgerðin kostar meira en milljón. Sjúklingar þurfa að greiða fyrir hana að fullu úr eigin vasa. 
Á sama tíma eru yfir 600 manns á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á Landspítalanum. Þar af hafa 125 beðið lengur en í eitt ár. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að svo löng bið eftir aðgerð sé ólíðandi. „Mér finnst náttúrulega óásættanlegt að fólk þurfi að bíða lengi kvalið og það er ólíðandi í hvaða heilbrigðiskerfi sem er að svo sé,“ segir Svandís. Því hafi hún kallað til fundar við sig í ráðuneytinu fulltrúa Landspítalans og annarra sem sinna þessum aðgerðum. „Til þess að tryggja það að þeir væru sannanlega í forgangi sem þyrftu mest á aðgerðum að halda.“

En er þá komið tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi, eitt fyrir þá sem eru vel settir fjárhagslega og annað fyrir hina sem minna hafa á milli handanna? „Varðandi það að borga sig fram fyrir, þá er það veruleiki sem að við komum alltaf til með að sjá, að efnamikið fólk getur borgað sig framfyrir í allskonar röðum, en það að það eru 60 manns sem að sem fara í þessar aðgerðir, dugar ekki til þess að hægt sé að tala um tvöfalt heilbrigðiskerfi,“ segir Svandís.

Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að stytta biðlista eftir þessum aðgerðum. Í fyrra voru gerðar 1.517 liðskiptaaðgerðir á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

En kemur til greina að ríkið niðurgreiði liðskiptaaðgerðir á einkastofum? Svandís á ekki von á því. „Ég held að það sé mjög langt í það að það verði eitthvert úrræði,“ segir hún.