Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

60 bráðabirgðasalerni sett upp víða um land

29.05.2016 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: Elín Hirst
Hraðri þróun í ferðaþjónustunni hafa fylgt vaxtarverkir segir Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Áhrif hennar á samfélagið og vöxtur séu fagnaðarefni en það verði að horfa lengra fram í tímann segir Elín - hlúa að innviðum og náttúruperlunum sem ferðamennirnir komi til að sjá. Hún telur að nokkuð hafi skort á langtímahugsun. Það verði að sjá ferðafólki fyrir lágmarksaðstöðu.

Elín segir að umhverfis- og samgöngunefnd hafi á dögunum til dæmis fjallað um mál þar sem verði að bregðast við. Fólk þurfi að komast á snyrtingu þegar það er á ferð um landið en ekki hafi verið gert ráð fyrir því. Verið sé að hanna snyrtingar til að setja upp víða um land en það taki tíma. Því hafi nefndin tekið þetta upp og Vegagerðin ætli nú að koma upp 60 bráðabirgðasnyrtingum víða um land. Umhverfis- og samgöngunefnd hvetji Vegagerðina til að hraða því og þá sé talað um að fé skorti. Elín segir að það verði að vera hægt að mæta svona lágmarkskröfu.