Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

55% vilja taka á móti fleiri flóttamönnum

22.05.2018 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Rúmur helmingur þeirra sem hafa tekið kosningapróf RÚV segjast sammála því að sveitarfélag sitt ætti, í samstarfi við ríkið, að taka á móti fleiri flóttamönnum sem boðið er hingað til lands. Alls segjast 55 prósent sammála því að slíkt sé gert en 41 prósent eru því ósammála. Um 40 prósent svarenda raða sér upp á endum prófsins, 21 prósent eru mjög ósammála því að taka við fleiri flóttamönnum í sveitarfélagi sínu en 20 prósent eru því mjög sammála.

Talsverður munur er á afstöðu fólks eftir sveitarfélögum. Þannig má nefna að 67 prósent Reykvíkinga eru sammála því að borgin taki við fleiri flóttamönnum sem hingað er boðið en 30 prósent eru því ósammála. 70 prósent af íbúum Reykjanesbæjar eru á móti því að taka við fleiri flóttamönnum í sveitarfélagi sínu en 26 prósent eru því sammála.

62 prósent íbúa á Seltjarnarnesi eru sammála því að taka við fleiri flóttamönnum en 34 prósent eru því ósammála. Sextíu prósent Kópavogsbúa eru sammála en 37 prósent ósammála og niðurstaðan varð sú sama á Akureyri. Bæði sveitarfélögin tóku á móti hópum sýrlenskra flóttamanna árið 2016.

56 prósent Hafnfirðinga eru sammála því að taka á móti fleiri flóttamönnum en 40 prósent þeirra eru því ósammála. 54 prósent Garðbæinga eru sammála því að bærinn taki á móti fleiri flóttamönnum í samstarfi við ríkið en 43 prósent eru því ósammála.

51 prósent íbúa Mosfellsbæjar eru því sammála að taka á móti fleiri flóttamönnum en 45 prósent eru því ósammála. Staðan er svipuð í Árborg þar sem 52 prósent vilja taka á móti fleiri flóttamönnum en 45 prósent eru því andvíg.

Á Akranesi eru 53 prósent andvíg því að sveitarfélagið taki á móti fleiri flóttamönnum í samvinnu við ríkið en 43 prósent eru því fylgjandi. 49 prósent íbúa í Fjarðabyggð eru ósammála fullyrðingunni en 47 prósent eru henni sammála. Í Vestmannaeyjum eru 57 prósent ósammála því að bærinn taki við fleiri flóttamönnum sem boðið er hingað til lands en 39 prósent eru því sammála. Í Skagafirði eru 50 prósent ósammála því að taka við fleiri flóttamönnum en 46 prósent eru sammála því. 59 prósent Ísfirðinga eru sammála því að bærinn taki á móti fleiri flóttamönnum en 38 prósent eru því ósammála.

Á Fljótsdalshéraði sögðust 53 prósent vera sammála því að taka við fleiri flóttamönnum sem hingað er boðið en 43 prósent kváðust því ósammála. Í Norðurþingi lýstu 49 prósent sig sammála því að taka á móti fleiri flóttamönnum en 48 prósent voru því ósammála.

Hægt er að taka kosningaprófið á kosningavef RÚV. Þar gefst fólki færi á að svara 30 prósent og sjá hvernig svör þess fara saman við svör frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningunum um helgina.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV