Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

5,5 meðmælendur fyrir hvert atkvæði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórir frambjóðendur fengu fleiri undirskriftir á meðmælendalista sína fyrir forsetaframboð en atkvæði í sjálfum kosningunum. Þrír þeirra fengu margfalt fleiri meðmælendur en atkvæði.

Hildur Þórðardóttir fékk færri atkvæði en nokkur forsetaframbjóðandi hingað til. Hún er líka með óhagstæðara hlutfall meðmælenda deilt með atkvæðum en nokkur annar forsetaframbjóðandi. Hún fékk hátt í sexfalt fleiri undirskriftir en atkvæði (5,53).

Ástþór Magnússon safnaði 3,89 gildum undirskriftum fyrir hvert eitt atkvæði sem honum var greitt í kosningunum. Það segir reyndar ekki alla söguna því hann þurfti að fella út nokkra meðmælendur í Vestfirðingafjórðungi þar sem hann hafði safnað fleiri undirskriftum en rúmuðust innan þeirra sem mátti skila inn. Frambjóðendur áttu að skila 1.500 til 3.000 undirskriftum meðmælenda með framboðum sínum, skipt eftir fjórðungum. Næðu þeir ekki lægri mörkum fengju þeir ekki að bjóða fram en færu þeir yfir efri mörkum þurftu þeir að fækka meðmælendum. 

Guðrún Margrét Pálsdóttir var með 3,49 meðmæli fyrir hvert eitt atkvæði sem hún fékk. Síðust kom svo Elísabet Jökulsdóttir með 1,37 undirskrift fyrir hvert atkvæði.

Fimm með fleiri atkvæði en meðmælendur

Hlutfallið milli undirskrifta og atkvæða snerist við hjá hinum frambjóðendunum. Sturla Jónsson var með 0,42 meðmælendur fyrir hvert atkvæði sem hann fékk og Davíð Oddsson 0,12. Davíð safnaði flestum undirskriftum allra frambjóðenda og þurfti að fella út meðmælendur á listum sínum til yfirkjörstjórna í Sunnlendinga- og Austlendingafjórðungum þar sem hann hafði safnað fleiri undirskriftum en rúmuðust innan þeirra viðmiða sem átti að skila inn vegna framboðs.

Andri Snær Magnason var með 0,06 meðmælendur fyrir hvert atkvæði, Guðni Th. Jóhannesson 0,04 og Halla Tómasdóttir 0,03. Guðni fékk 24,37 atkvæði fyrir hverja undirskrift meðmælenda sem hann safnaði og Halla 29,41.

2.782 auð og ógild atkvæði

1.049 atkvæðaseðlar voru úrskurðaðir ógildir við talningu atkvæða í gær. 1.733 kjósendur skiluðu auðu. Samtals eru það 2.782 atkvæði. Til samanburðar má nefna að þeir fjórir frambjóðendur sem lentu í neðstu sætunum fengu samanlagt 2.666 atkvæði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV